Afmælisárið 2025 í máli og myndum
16. desember 2025
40 ára afmælisárið 2025 hefur verið viðburðaríkt hjá Alzheimersamtökunum.
Verkefnin eru brýn, krefjandi en umfram allt ánægjuleg. Við finnum fyrir miklum stuðningi frá ykkur fólkinu í kringum samtökin og hvetur það okkur áfram. Mikil þátttaka í viðburðum á vegum samtakanna endurspeglar þá miklu þörf á fræðslu og stuðningi við einstaklinga með heilabilun og aðstandendur þeirra.
Við horfum til baka þakklát og full tilhlökkunar fyrir komandi verkefnum á nýju ári.
Hér að neðan er stiklað á stóru í starfsemi samtakanna á þessu viðburðaríka afmælisári:
Alþjóðlegur dagur Lewy body
Við vöktum athygli á að 28. janúar er alþjóðlegur dagur Lewy body sjúkdóms. Tilgangurinn er að auka umræðu um sjúkdóminn sem er nokkuð algengur hér á Íslandi.
Styrktartónleikar
Styrktartónleikar voru haldnir í Bæjarbíói í Hafnarfirði sunnudaginn 16. mars þar sem komu fram Bjarni Ara, Helga Margrét Clarke ásamt Jóni píanóleikara, Eyjólfur Kristjánsson, Guðrún Árný og Eva Ruza hélt utan um þetta allt saman.
Við erum listamönnunum sem gáfu vinnu sína, gestum og starfsfólki í Bæjarbíói þakklát fyrir að taka þátt í þessu með okkur 💜
Human forever
Í apríl sýndum við einstöku heimildamyndina Human Forever í Bíó Paradís.
Það var vel mætt og góður andi í salnum þar sem einstaklingar með heilabilun, aðstandendur þeirra, starfsmenn í velferðarþjónustu, rekstraraðilar hjúkrunarheimila, ráðuneytisstarfsmenn, þingmenn og aðrir horfðu saman á þessa áhrifamiklu heimildarmynd.
Ógleymanlegt páskaegg
Fyrir páskana voru til sölu ógleymanleg páskaegg í takmörkuðu upplagi í verslunum Bónus en eggin voru framleidd af Góu. Með hverju eggi sem seldist runna 1.000 kr til okkar. Skemmst er frá því að segja að eggin seldust upp og vöktu lukku 💜
Samtals söfnuðust 500.000 kr. sem runnu til Alzheimersamtakanna.
Bekkjaganga
Annað árið í röð héldum við bekkjagöngu og að þessu sinni var hún haldin á sama tíma í Hafnarfirði og á Höfn í Hornafirði og það á fallegum laugardegi í maí. Á Akureyri var bekkjaganga haldin í byrjun júní í frekar drungalegu veðri.
Bekkjagangan er liður í því að stuðla að líkamlegri og félagslegri virkni sem eru mikilvægir þættir almennrar heilsu. Það er ljóst að þetta er viðburður sem er kominn til vera og verður vonandi á enn fleiri stöðum á næstu árum.
Fleiri fjólubláir bekkir
Fjólubláum bekkjum hefur aldeilis fjölgað víðs vegar um landið. Á árinu voru settir upp bekkir á Akranesi, Eskifirði, Húsavík, Húnaþingi vestra, Ísafirði, Akureyri, Raufarhöfn, Suðurnesjabæ og á Grundarfirði.
Tilgangur þeirra er að vekja athygli á og stuðla að umræðu um heilabilun sem er mikilvægur þáttur í að minnka fordóma í samfélaginu. Þá verða þeirra einnig vonandi notaðir sem mest hvort sem er til að hvíla lúin bein, ræða málin eða bara njóta umhverfisins.
Reykjavíkurmaraþon
Reykjavíkurmaraþonið er ávallt stór þáttur í starfi samtakanna og sú var svo sannarlega raunin í ár. Alls voru 185 sem hlupu, hlöbbuðu eða gengu í nafni samtakanna og söfnuðu áheitum. Þegar upp var staðið söfnuðust rúmar 14 m.kr. sem er nýtt met.
Við vorum með hvatningarstöð á Eiðisgranda og þar var frábært að fylgjast með og hvetja. Þá var einnig stór hópur sem mætti í skemmtiskokkið og var flottur í fjólubláu bolunum frá okkur.
Við erum hlaupurum og þeim sem heita á þá innilega þakklát fyrir stuðninginn 💜
Alzheimertenglar hittust
Í september hittust Alzheimertenglar víðsvegar af landinu hjá okkur í Lífsgæðasetrinu í St Jó og áttu saman afar góða og gagnlega stund.
Tilgangurinn var að kynnast enn betur og styrkja tengslin. Hópurinn er fjölbreyttur en þar eru aðilar sem hafa nýverið tekið að sér að vera tengill en aðrir eru með áralanga reynslu. Við vorum því með svokallaðan kynningarhring þar sem tenglarnir sögðu frá starfinu á sínu svæði. Þannig gafst öllum tækifæri til að læra hver af öðrum og deila hugmyndum.
Það er dýrmætt að hafa svona sterkan hóp víðs vegar um landið
40 ára afmælisráðstefna
Í lok september fögnuðum við 40 ára afmæli samtakanna og alþjóðlegum degi Alzheimer með glæsilegri ráðstefnu á hótel Nordica.
Við hlýddum á frábær erindi, sungum afmælissöng, nutum tónlistar og heiðruðum Jón Snædal. Hátt í 400 manns tóku þátt á staðnum og í streymi.
Ráðstefna Alzheimer Europe
Árleg ráðstefna Alzheimer Europe fór fram í Bologna þetta árið. Að þessu sinni voru um 100 Íslendingar mættir. Þar af var starfsfólk Alzheimersamtakanna og formaður, auk fjölda starfsfólks á hjúkrunarheimilum og sérhæfðum dagþjálfunum. Með í för voru einnig nokkrir einstaklingar með heilabilun og aðstandendur þeirra.
Við komum heim innblásin nýjum hugmyndum til að efla þjónustu, fræðslu og stuðning hér á landi.
Fræðsluerindi
Við fengum til okkar marga góða sérfræðinga sem héldu fræðsluerindi hjá okkur í húsi. Þar á meðal var fjallað um tónlist, heilsueflingu, erfðamál, tæknilausnir, ráðgjöf, áskoranir aðstandenda og greiningarferli heilabilunar. Fræðslufundirnir voru allir teknir upp. Við hvetjum áhugasama til að horfa á upptökurnar.
Fræðsluferðir um landið
Við vorum dugleg að ferðast um landið og halda fræðsluerindi fyrir almenning og fagfólk, eitthvað sem er okkur ákaflega mikilvægt.
Thelma fræðslustjóri og Ásta Kristín ráðgjafi fóru um Suðurlandið og heimsóttu Hellu og Selfossi. Þá flugu þær austur og héldu fræðslu á Seyðisfirði og Reyðarfirði bæði fyrir almenning og fagfólk.
Í byrjun sumars voru þær á ferðinni um norðurlandið þar sem hátt í 200 manns fengu fræðslu á Húsavík, Dalvík og Akureyri. Í haust var það síðan Snæfellsnesið og Suðurnesin. Þá héldu þær einnig nokkur erindi á höfuðborgarsvæðinu fyrir fagfólk og félagasamtök.
Bjart í Álfasteinum
Í Drafnarhúsi í Hafnarfirði er rekin sérhæfð dagþjálfun fyrir fólk með heilabilun.
Í haust gáfu þau út fallega og eigulega bók sem kallast Bjart í álfasteinum. Í henni má finna vísur og myndverk sem vísnahópur Drafnarhúss hefur ort í sameiningu, og hins vegar málverk, unnin með akrýl- og vatnslitum, sem þátttakendur í myndlistarsmiðju Drafnarhúss hafa málað.
Þetta er afar falleg og eiguleg bók sem telur 270 blaðsíður.
Alzheimerkaffi
Á árinu voru haldin fjölmörg Alzheimerkaffi, reglulega í Reykjavík og á Akureyri en einnig af og til víðs vegar um landið.
Í Alzheimerkaffi mætir oftast gestur með fræðslu eða skemmtun. En þar er ávallt spjall, kaffi, hljóðfæraleikur og gjarnan söngur. Það er ætlað fólki með heilabilun og aðstandendum þeirra og tilvalinn vettvangur til að hittast og eiga notalega samverustund.
Sálfræðiþjónusta
Sálfræðiþjónustunan okkar hefur verið mjög vel nýtt á árinu. Hún hefur verið í höndum þeirra Brynhildar Jónsdóttur og Önnu Siggu Jökuls Ragnheiðardóttur.
Félagsmenn Alzheimersamtakanna geta pantað viðtal við sálfræðing með því að senda tölvupóst á alzheimer@alzheimer.is eða í síma 533 1088. Viðtalið kostar 5.000 kr.
Ráðgjafarþjónustan
Ráðgjafarþjónustan hélt áfram að vaxa og dafna á árinu undir stjórn Ástu Kristínar sem býður upp á ráðgjöf í Lífsgæðasetrinu, í gegnum síma eða fjarfund fyrir öll sem vilja, endurgjaldslaust.
Hægt er að panta tíma í síma 520 1082 eða í radgjafi@alzheimer.is
Stuðningshópar
Stuðningshóparnir okkar voru gríðarlega vel sóttir á árinu. Fjórir mismunandi hópar eru starfandi og hver þeirra hittist einu sinni í mánuði. Þetta er almennur hópur fyrir aðstandendur fólks með heilabilun, annar fyrir fólk sem á maka á hjúkrunarheimili, sá þriðji fyrir fólk sem á foreldra með heilabilun og loks rafrænn stuðningshópur sem hefur stækkað töluvert á árinu.
Hóparnir byggjast á hugmyndafræði jafningjastuðnings og er markmiðið með samverunni að hittast, spjalla og deila reynslunni. Stuðningur annarra í svipuðum aðstæðum getur bætt líðan og dregið úr streitu.
Norrænt samstarf
Alzheimersamtökin eru í norrænu samstarfi við systurfélög sín á norðurlöndum og var árlegur fundur haldinn í Helsinki í ár.
Það er mikils virði að skiptast á þekkingu við löndin sem við berum okkur helst saman við.














