Ráðgjöf

Markmið Alzheimersamtakanna er að miðla upplýsingum til fólks með heilabilun, aðstandenda, fagaðila og annarra sem láta sig málefnið varða.

Sigurbjörg Hannesdóttir, iðjuþjálfi, starfar sem fræðslustjóri Alzheimersamtakanna og sinnir jafnframt ráðgjöf á skrifstofu samtakanna í Lífsgæðasetri St.Jó 3.hæð, Suðurgötu 41, Hafnarfirði. Boðið er upp á ráðgjafa- og stuðningsviðtöl fyrir einstaklinga og hjón/pör og fjölskyldufundi ef fleiri vilja koma saman.  

Heilabilunarsjúkdómar hafa djúpstæð áhrif á fjölskyldulífið. Hlutverk breytast og eðli samskipta verður öðruvísi. Þegar greiningin er komin fram, þarf því að komast að niðurstöðu um hvernig haga skuli lífinu með heilabilun. Þegar sjúkdómurinn ágerist fer ástand hins veika versnandi. Það þýðir að fjölskyldan þarf stöðugt að aðlaga sig og finna nýjar lausnir á þeim vandamálum sem fylgja sjúkdómnum. Það krefst orku og þolinmæði, sem oft getur reynst erfitt þegar vandamálin hlaðast upp. 

Fólk með heilabilun og aðstandendur þeirra þurfa því á ráðgjöf, leiðbeiningum og stuðningi að halda. Ekki er vitað hversu margir á Íslandi lifa með heilabilun í daglegu lífi, annað hvort vegna þess að þeir eru sjálfir með heilabilun eða vegna þess að einhver í fjölskyldunni er með heilabilun. Að eiga samskipti við aðra sem eru í sömu aðstæðum og maður sjálfur getur verið mikil styrkur til að takast á við daglegt líf með heilabilun.

Ekki skiptir máli hvar í ferlinu einstaklingur eða fjölskylda er stödd þegar pantað er viðtal. Fyrir þá sem ekki eiga heimangengt eða búa utan höfuðborgarsvæðisins má hringja og óska eftir ráðgjafaviðtali í gegnum síma eða fjarfundarbúnað.  Ráðgjöfin er frí fyrir félagsmenn en aðrir greiða 5.000 kr. fyrir viðtalið.

Senda fyrirspurn um ráðgjöf

Viltu vita meira? Sendu okkur línu.

Lífsgæðasetur St.Jó, 3.hæð, Suðurgata 41, Hafnarfjörður

Opið mánudaga til fimmtudaga frá 09:00 - 16:00.

Sími: 533 1088

alzheimer@alzheimer.is