Alþjóðlegur dagur Lewy body

28. janúar 2025

28. janúar er alþjóðlegur dagur Lewy body sjúkdóms. Tilgangurinn er að vekja athygli á sjúkdómnum sem er nokkuð algengur hér á Íslandi.

Upplýsingar um Lewy body

Lewy body er alvarlegur og hægt versnandi heilabilunarsjúkdómur. Sjúkdómurinn er nefndur eftir þýska taugasérfræðingnum Friedrich H. Lewy sem var fyrstur til þess að lýsa próteinum sem safnast fyrir í heilanum sem síðan hafa verið kölluð Lewy bodies.

Einkenni

Lewy body þróast hægt og byrjar oft með breytingum á athygli og árvekni. Það geta komið stutt eða löng tímabil þar sem einstaklingurinn virkar fjarlægur, óskýr eða ringlaður, en ástandið getur verið breytilegt frá degi til dags eða klukkustund til klukkustundar. Einstaklingurinn getur virkað sljór, þreyttur eða sinnulaus, starað út í loftið í langan tíma og sofið meira yfir daginn en eðlilegt þykir.

Margir einstaklingar með Lewy body sjúkdóm eiga það til að sjá sýnir tímabundið. Þær eru yfirleitt líflegar, nákvæmar og eðlilegar, t.d. í formi manneskja og dýra sem eru til staðar í herberginu án þess að segja nokkuð. Ofsjónirnar eru ekki endilega skelfilegar.

Að auki þá eiga þrír af hverjum fjórum erfiðara með gang og verða hægari og stífari í hreyfingum. Hreyfingatruflanirnar minna á einkenni Parkinsonssjúkdóms, en skjálftinn er minni.  Fínhreyfingar versna, talið verður lægra og hægara og svipbrigði verða minni.

Sumir upplifa svefntruflanir vegna líflegra martraða og órólegra hreyfinga. Svefntruflanirnar geta komið fram mörgum árum áður en önnur einkenni koma fram og þær eru mjög algengar.

Ferli

Lewy body byrjar oftast seint á lífsleiðinni, yfirleitt eftir 70 ára aldurinn. Í flestum tilfellum stendur framgangurinn yfir í 6-10 ár þar sem stigmagnandi versnun verður á minni, yfirsýn, lausn vandamála og annarri vitrænni virkni. Einstaklingar með Lewy body verða seinni og hægari í bæði hugsun og hreyfingu. Hreyfitruflanirnar versna líka með tímanum.

Tíðni

Lewy body er sennilega þriðja algengasta tegund heilabilunar. Sérfræðilæknum hefur reynst erfitt að greina Lewy body heilabilun frá Alzheimersjúkdómi og Parkinsonsjúkdómi og tíðni sjúkdómsins því nokkuð á reiki.

Orsök

Orsök Lewy body er ekki þekkt. Þó er hægt að lýsa því sem gerist í heilanum þegar sjúkdómurinn þróast áfram. Skaðleg uppsöfnun á kúlulaga próteinum verður í heilanum og kallast þau Lewy bodies. Sjúkdómurinn veldur einnig skorti á asetýlkólín boðefninu sem heilafrumur nota til að hafa samskipti sín á milli.

Áhættuþættir og erfðir

Það eru engir þekktir áhættuþættir fyrir Lewy body. Þá er þessi tegund af heilabilun ekki arfeng.

Meðferð

Lewy body er ólæknanleg, en til eru lyf sem geta dregið tímabundið úr einkennunum.

Lyfin hægja á niðurbroti asetýlkólín boðefninu sem heilafrumurnar nota til að hafa samskipti sín á milli. Þau bæta því getu heilans til að endurvinna sitt eigið boðefni, asetýlkólín. Lyfin virka þó ekki fyrir alla einstaklinga með Lewy body og læknismeðferðin getur ekki staðið ein og sér. Sumir þurfa meðferð gegn Parkinsonseinkennum.

Fyrir einstaklinga með Lewy body og aðstandendur er ráðgjöf og hagnýtur stuðningur sem og aðstoð við hversdagslegar athafnir mikilvægustu þættirnir í meðferðinni. Einstaklingar með Lewy body þola illa geðrofslyf sem valda því að erfitt er að meðhöndla ofsjónir þeirra.

Ráðgjöf

Við minnum á að hægt er að panta tíma í ráðgjöf hjá okkur í síma 520 1082 eða með því að senda tölvupóst á radgjafi@alzheimer.is

Ráðgjöfin er öllum að kostnaðarlausu og veitt á staðnum, í gegnum síma eða fjarfund.

Vantar þig aðstoð?

Vantar þig aðstoð?