Glæsileg afmælisráðstefna
23. september 2025
Um síðastliðna helgi fögnuðum við 40 ára afmælinu okkar og alþjóðlegum degi Alzheimer með því að halda ráðstefnu á hótel Nordica. Þangað mættu um 200 manns og álíka margir fylgdust með í streymi.
Opnunarerindið hélt Guðlaugur Eyjólfsson framkvæmdastjóri samtakanna. Hann fór yfir söguna og hvað hefur áunnist á þessum 40 árum ásamt því að minnast þeirra sem veittu samtökunum forystu fyrstu áratugina.
Verndari samtakanna og ráðherra
Björn Skúlason maki forseta og verndari samtakanna hélt ávarp og sagði m.a. frá opinberri heimsókn þeirra hjóna til Svíþjóðar. Þar heimsótti hann Silviehemmet með Silvíu drottningu en það sérhæfir sig í fræðslu, dagþjónustu og þróun úrræða sem bæta lífsgæði fólks með heilabilun og aðstandenda þeirra. Þá sagði Björn frá matreiðslunámskeiði sem hann hélt nýverið fyrir maka einstaklinga með heilabilun en sú hugmynd vaknaði eftir að hann sótti stuðningshóp fyrir aðstandendur hjá samtökunum. Ljóst er að Björn hefur kynnt sér málefnið afar vel og ræddi hann því mikilvægi þess að fleiri úrræði fyrir einstaklinga með heilabilun verði opnuð.
Alma Möller heilbrigðisráðherra steig næst í pontu og fór yfir stöðuna í málaflokknum. Hún kom jafnframt inn á mikilvægi forvarna og sagði frá vinnu sem er hafin á endurnýjun á aðgerðaráætlun um þjónustu við einstaklinga með heilabilun, en núverandi áætlun rennur út á árinu. Alma sagðist jafnframt heyra ákallið um að þörf sé á fleiri úrræðum.
Jón Snædal heiðraður
Þá hélt Jón Snædal öldrunarlæknir áhugaverðan fyrirlestur um sögu heilabilunar en hann er helsti sérfræðingur landsins á því sviði og hefur allan sinn feril helgað starfi sínu fólki með heilabilun og aðstandendum þeirra ásamt því að stunda rannsóknir og veita fræðslu.
Samtökin ákváðu því að heiðra Jón á ráðstefnunni og þakka honum fyrir allan stuðninginn og hjálpina í gegnum árin. Hann er alltaf boðinn og búinn til að veita okkur faglega ráðgjöf og samtökin væru ekki á þeim stað sem þau eru í dag án Jóns og sama má segja um umræðuna um heilabilun í samfélaginu. Hún væri ekki á þeim stað sem hún er í dag ef ekki væri fyrir Jón.
Jón fékk blóm og smá glaðning frá okkur og allur salurinn stóð upp og klappaði vel og lengi fyrir þessum mikla leiðtoga á sviðinu.
Afmælissöngur, gamanmál og Seiglukórinn
Freyr Eyjólfsson var næstur á svið og fékk allan salinn til að standa upp og syngja afmælissönginn með honum. Hann var síðan með stutt gamanmál sem hitti aldeilis í mark og því fóru allir brosandi út í kaffihléið.
Eftir kaffið var komið að Seiglukórnum sem margir höfðu beðið spenntir eftir. Kórinn er skipaður einstaklingum sem sækja Seigluna og æfir að jafnaði einu sinni í viku undir styrkri stjórn Önnu Sigríðar Helgadóttur söngkonu. Þau sungu nokkur lög þar á meðal Blátt lítið blóm eitt er og Kenndu mér að kyssa rétt. Viðtökurnar voru það góðar að kórinn var klappaður upp og kórinn gekk stoltur af sviði.
Mikilvægi félagasamtaka og áskoranir framtíðarinnar
Eva Þengilsdóttir, framkvæmdastjóri ÖBÍ hélt erindi um mikilvægi félagasamtaka og kom inn á það hvernig þau geti verið drifkraftur breytinga og gott þrýstiafl í samfélaginu.
Að lokum var komið að Steinunni Þórðardóttur, formanni Læknafélagsins, öldrunarlækni og framkvæmdastjóra lækninga hjá Hrafnistu. Hún var með erindi um áskoranir framtíðarinnar í málefnum heilabilunar en von er á gífurlegri fjölgun á næstu áratugum og eins og Steinunni sagði einnig í sjónvarpsviðtali á RÚV um kvöldið: „Ég held að við getum sagt að við séum að horfa upp á faraldur 21. aldarinnar hvað varðar Alzheimer og aðra heilabilunarsjúkdóma.”
Þá kom Steinunn einnig inn á mikilvægi forvarna og fjallaði um nýju lyfin sem eru að koma á markað.
Fleiri Seiglur og þakkir
Það má segja að rauði þráðurinn í gegnum öll erindi dagsins hafi verið að við þurfum fleiri Seiglur, eða álíka úrræði strax við greiningu og ekki bara á höfuðborgarsvæðinu.
Við þökkum öllum sem tóku þátt, bæði þeim sem héldu erindi og þeim sem fylgdust með, hvort sem var á staðnum eða í gegnum streymi. Samstaðan sem við upplifðum gefur okkur kraft til að halda áfram baráttunni fyrir betri þjónustu og bættri stöðu einstaklinga með heilabilun.
Upptaka
Ráðstefnan var tekin upp. Hægt er að horfa á hana hér