Hvað er Seiglan?

Þjónusta Seiglunnar er ætluð fólki sem er komið með greiningu á heilabilunarsjúkdómi sem er á stigi vægrar vitrænnar skerðingar* og aðstandendum þeirra, frá greiningu og þar til þörf er á sérhæfðari þjónustu eins og t.d sérhæfð dagþjálfun. Við bjóðum upp á fjölda þjónustutilboða í hverjum mánuði sem byggist á hugrænni, líkamlegri og félagslegri þjálfun og hlustum eftir áhugasviði þjónustuþega okkar þegar við útbúum dagskrá okkar. Þannig hafa þjónustuþegar okkar mikið um það að segja hvað er í boði hverju sinni.

* Ferill heilabilunarsjúkdóma hefst venjulega löngu áður en merki þeirra verða augljós í hegðun og færni og hefur þetta millistig á milli eðlilegrar vitrænnar getu og heilabilunar verið kölluð væg vitræn skerðing (mild cognitive impairment).

Markmið Seiglunnar er að hægja á framgangi sjúkdómsins með því að:

  • Veita fólki stuðning við að setja sér markmið sem auka daglega virkni og áhrif á lífsgæði almennt og eflir sjálfsmynd þeirra
  • Viðhalda líkamlegri, hugrænni og félagslegri færni
  • Stuðla að sjálfstæði og aukinni virkni
  • Veita félagslega samverustund og hvetja til samskipta

Hugmyndafræði iðjuþjálfunar

Seiglan starfar eftir hugmyndafræði iðjuþjálfunar. Hugmyndafræði iðjuþjálfunarfagsins byggir á þeirri sýn að iðja sé öllu fólki nauðsynleg og frá örófi alda hafi líf manneskjunnar einkennst af þörf til að stunda iðju og taka þátt í samfélaginu. Rannsóknir hafa sýnt að ef fólk kemst í þær aðstæður að geta ekki sinnt þeirri iðju sem er því mikilvæg, þá hefur það neikvæð áhrif á heilsu þess og líðan.

Með því að skapa aðstæður fyrir einstaklinginn til að sinna iðju sinni og efla félagsleg tengsl eru auknar líkur á meiri jafnvægi í lífi einstaklingsins, ásamt betri líðan.

Þjónustan okkar er einstaklingsmiðuð og valdeflandi og verður til á forsendum þeirra sem sækja þjónustuna. Sú þjónusta sem veitt er í Seiglunni tekur því mið af áhuga, getu, óskum og þörfum þjónustuþega okkar.

 

Þjónustan okkar er gjaldfrjáls að mestu en greitt er fyrir ferðir, námskeið og sálfræðiviðtöl ásamt því að greitt er sérstaklega fyrir þjónustu samstarfsaðila okkar.

Opnunartími okkar er kl. 8:30 – 15:30 mánudaga-fimmtudaga og 8:30 – 12:00 á föstudögum.

Yfirumsjón með starfinu hefur Harpa Björgvinsdóttir, iðjuþjálfi og verkefnastjóri Seiglunnar.

Vantar þig aðstoð?

Vantar þig aðstoð?