Alþjóðlegur dagur Lewy body

28. janúar 2026

Í dag, 28. janúar, er alþjóðlegur dagur Lewy body sjúkdómsins. Tilgangur dagsins er að auka vitund og skilning á einum af algengustu sjúkdómum sem valda heilabilun. 

Gera má ráð fyrir að á bilinu 200-600 einstaklingar séu með Lewy body á Íslandi. Sjúkdómurinn hefur mikil áhrif á líf einstaklingsins sem greinist og aðstandendur.

Einkennin geta verið fjölbreytt og sveiflukennd, svo sem breytingar á vitrænni getu, ofskynjanir, svefnraskanir og hreyfieinkenni. Þetta gerir sjúkdóminn flókinn, bæði í greiningu og meðferð.

Á þessum degi viljum við hvetja til aukinnar umræðu, því þekking á Lewy body og heilabilun almennt er enn takmörkuð, bæði innan heilbrigðiskerfisins og í samfélaginu.

Við þurfum að tryggja að fólk með heilabilun og fjölskyldur þeirra fái þann stuðning sem þau þurfa á að halda. Með aukinni vitund og umræðu getum við dregið úr fordómum, aukið skilning og skapað betra samfélag fyrir öll sem glíma við heilabilun.

Í tilefni dagsins verður opið hús hjá okkur í Alzheimersamtökunum í dag 28. janúar, frá kl. 16:30 til 18:00 í Lífsgæðasetrinu í Hafnarfirði. 

Við hvetjum öll sem hafa greinst með Lewy body, aðstandendur og aðra áhugasama til að koma og þiggja léttar veitingar en einnig munum við fá að sjá stiklu úr íslenskri heimildamynd um Lewy body sem er í framleiðslu.

Jón Snædal skrifaði nýverið pistil um greiningu á Lewy body. Hann má lesa hér.

Vantar þig aðstoð?

Vantar þig aðstoð?