Hvernig er Lewy sjúkdómur greindur?
Almenn umfjöllun um Lewy sjúkdóminn má lesa hér en þessi pistill fjallar sérstaklega um það hvernig hann er greindur.
Almennt er talið að Lewy sjúkdómur sé til staðar í 5-10% þeirra tilvika sem greinast á minnismóttökum. Tíðni hans á minnismóttöku Landspítalans er við lægri mörkin en þetta er þó næstalgengasti heilahrörnunarsjúkdómurinn. Þó ekki sé vitað með vissu um tíðni sjúkdómsins virðist sem hlutfallið miðað við Alzheimer sé liðlega 1 á móti 10 og samkvæmt því gætu á bilinu 200-600 einstaklingar á Íslandi verið með Lewy sjúkdóm.
Nýjasta skilgreining sjúkdómsins er frá árinu 2017 en á eingöngu við í heilabilun því forstig sjúkdómsins hefur ekki verið skilgreint fyllilega. Það hafa þó birst rannsóknir á forstigi Lewy sjúkdóms (Mild Cognitive Impairment due to Lewy body disease) og lagðar fram hugmyndir að skilgreiningu á því og eru þær notaðar í vísindarannsóknum en síður í almennri uppvinnslu og greiningarvinnu.
Vitræn skerðing í sjúkdómnum er einkum á þremur sviðum; hugsun verður hægari, verklag versnar og sjónúrvinnsla skerðist sem leiðir til slakrar ratvísi og lélegs fjarlægðarskyns. Minni getur verið allgott þrátt fyrir töluverða skerðingu á öðrum sviðum. Þrjú önnur höfuðeinkenni sjúkdómsins geta einnig verið til staðar; Parkinson einkenni, ofskynjanir og tímabundið rugl. Ef öll þrjú einkennin koma fram þykir greining vera vel staðfest en hún er óvissari ef þau eru eitt eða tvö.
Greining á Lewy sjúkdómi byggir á eftirfarandi stoðum:
1. Upplýsingar frá sjúklingi og aðstandendum eru grundvöllur greiningar líkt og á við um Alzheimer sjúkdóm. Þetta eru upplýsingar um einkenni, hvernig þau komu fram og þróuðust. Þessi stoð er enn mikilvægari en í Alzheimer sjúkdómi vegna skorts á ábyggilegum aðferðum til greiningar.
2. Vitrænt mat. Einföld verkefni eru lögð fyrir í heilsugæslu eða hjá lækni eða hjúkrunarfræðingi á minnismóttöku. Þar er einnig hægt að fá ítarlegt taugasálfræðilegt mat sem er lykilrannsókn þegar um er að ræða þennan sjúkdóm og heilabilun ekki orðin mikil. Matið getur gefið sterkar vísbendingar því sérstök svið vitrænnar getu eru meira skert en í Alzheimer sjúkdómi en önnur svið haldast betur. Taugasálfræðilegt mat er þó ekki sjúkdómsgreiningaraðferð.
3. Taugaskoðun. Hér er átt við læknisskoðun á taugakerfi einstaklings en Parkinson lík einkenni eru mjög algeng í þessum sjúkdómi og eru þau fundin með slíkri skoðun.
4. Segulómun af heila. Líkt og við greiningu á Alzheimer sjúkdómi eru helstu notin að greina aðra sjúkdóma sem gætu verið orsök að einkennum viðkomandi einstaklings. Það á einkum við blóðrásartruflanir svo sem blóðtappa og blæðingar. Að því leyti er þessi rannsókn mikilvæg því oft getur verið erfitt að meta hvort einkennin stafa af hrörnunarbreytingum eða truflunum á blóðrás. Engin sérstök staðbundin rýrnun bendir til þessa sjúkdóms líkt og á við um Alzheimer.
5. Jáeindaskanni með notkun á geislaefni (ísótóp) sem binst við sykur getur sýnt hvort efnaskiptaminnkun er til staðar í heilavef og þá hvar. Ef skerðing er til staðar í aftasta hluta heilans en ekki annars staðar getur það stutt greininguna.
6. DAT skann sem notar sérstakt geislaefni sem binst við dópamín. Getur sýnt hvort skerðing er í starfsemi djúpkjarna heilans en svo er oftast í þessum sjúkdómi.
7. Svefnrannsókn til að meta hvort hreyfingar í svefni eru óeðlilega miklar en slíkt er góð vísbending um sjúkdóminn.
Engin prótein er hægt að mæla úr mænuvökva eða blóði sem eru sértæk fyrir Lewy sjúkdóm. Að samanlögðu eru rannsóknaraðferðir ekki eins nákvæmar og við greiningu á Alzheimer sjúkdómi. Það getur leitt til þess að sjúkdómsgreining sé ekki örugg og þá gildir það sem var oft reyndin áður með greiningu á Alzheimer sjúkdómi, að taka tímann í lið með sér og endurmeta ástandið eftir nokkurn tíma, oftast um ár.
Samið í janúar 2026
Jón Snædal