47. pistill: Greining á Alzheimer sjúkdómi með einfaldri blóðprufu

Nýlega hefur verið skýrt frá því að hægt sé að mæla efni í blóði sem segi til um hvort viðkomandi sé kominn með breytingar í heila sem valda Alzheimer sjúkdómi, jafnvel þótt einkenni hans séu ekki komin fram. Hér verður stuttlega greint frá því hvernig staðan er núna. Leit að einfaldri aðferð til greiningar á Alzheimer sjúkdómi með blóðprufu hefur lengi staðið yfir. Fjölmörg efni hafa verið rannsökuð en flest þeirra ekki endurspeglað nægilega vel sjúkdóminn og niðurstöður því ónákvæmar. Efnin eru einkum af tvennum toga: Annars vegar þau sem koma úr efnahvörfum amyloid próteins en það er efni sem vill safnast fyrir milli heilafrumna í sjúkdómnum. Erfitt hefur reynst að mæla þessi efni og munurinn er lítill á magni þeirra hjá þeim sem hafa sjúkdóminn og þeim sem heilbrigðir eru. Því er ólíklegt að þau nýtist til greiningar.

Hins vegar eru efni sem tengjast próteinum sem eru innan frumna, svokölluð tau prótein. Nokkur þeirra hafa verið rannsökuð í þessu skyni og eitt þeirra, sem kallast p-tau-217 lofar góðu. Framleiðendur mótefna sem notuð eru til að mæla þetta prótein hafa átt í erfiðleikum með að framleiða nægilegt magn til almennrar notkunar á rannsóknarstofum en þess er vænst að sá vandi verði leystur. Ef það gengur eftir er um nýjung að ræða sem hægt yrði að taka í notkun hér á landi strax á þessu ári. Það vill svo til að rannsóknarstofan í Gautaborg sem hefur farið fyrir flestum vísindarannsóknunum á þessu sviði er einmitt sú sem  minnismóttakan á Landakoti hefur verið í samstarfi við.  

Hægt er að sjá ferns konar notkunarmöguleika:

1.      Greining. Um leið og hægt verður að mæla próteinið í blóði á rannsóknarstofunni í Gautaborg mun minnismóttakan á Landakoti nýta aðferðina til greiningar á Alzheimer sjúkdómi. Til að byrja með verður þetta viðbót við aðrar rannsóknir en hugsanlega verður hægt að hætta við einhverjar þeirra síðar svo sem mænuvökvarannsókn. Einnig er líklegt að mælingin verði síðar í boði fyrir skjólstæðinga heilsugæslunnar.

2.      Eftirfylgd. Svo virðist sem magn p-tau-217 byrji að hækka áður en fyrstu einkenni koma fram og haldi svo áfram að hækka þar til heilabilun hefur myndast en virðast hækka hægt eftir það. Það er því hægt að nota mælingar á efninu til að fylgja þeim eftir sem koma til rannsóknar en eru með mjög lítil einkenni og óljósa niðurstöðu úr rannsóknum. Mæling síðar gæti sýnt hvort þeir séu í raun með Alzheimer. 

3.      Lyfjarannsóknir. Þegar er byrjað að mæla p-tau-217 til að velja fólk í lyfjarannsóknir og þar með fækka þátttakendum sem ólíklegt er að lyfin hjálpi. Í dag er það gert með mænuvökvarannsókn eða jáeindaskanna en mæling úr blóðprufu er mun einfaldari og ódýrari aðferð.

4.      Skimun. Líklega verður mæling á þessu próteini ekki notuð í skimun fyrr en áhrifarík meðferð verður í boði við þessum sjúkdómi. Það hefur ekki mikinn tilgang að skima nema hægt sé bjóða upp á meðferð sem skilar miklum árangri.

 

Það lítur því þannig út að á næstu misserum verði komnar fram tvær mikilvægar nýjungar er varða Alzheimer sjúkdóm; einföld aðferð til greiningar og áhrifaríkari lyf en nú er völ á.

 

Vantar þig aðstoð?

Vantar þig aðstoð?