43.pistill Fréttir af nýju lyfi gegn Alzheimer sjúkdómi
Þann 3. maí kynnti lyfjafyrirtækið Ely Lilly niðurstöður sínar á lyfinu donanemab og hafa þær vakið töluverða athygli. Lyfið hreinsar svokallaðar amyloid útfellingar úr heila og seinkar framgöngu sjúkdómsins. Áhrifin eru tölfræðilega afgerandi. Þetta er annað lyfið á innan við ári sem sýnir viðlíka virkni, - hitt lyfið er lecanemab - og er líklegt að bæði lyfin komist á markað í Evrópu á næsta ári.
Bæði lyfin hreinsa amyloid úr heilavef en lengi hefur verið talið að uppsöfnun efnisins sé upphafsferlið í sjúkdómnum.
Rannsóknir með lyfjunum stóðu í eitt og hálft ár og því ekki vitað hvað þau gera til lengri tíma. Áhrif þeirra virðast vera svipuð en það er þó erfitt að meta því lyfin hafa ekki verið borin saman og mælikvarðar sem notaðir voru í rannsóknum á þeim voru ekki alveg hinir sömu.
Aukaverkanir lyfjanna eru svipaðar og þar er einkum þrennt sem þarf að vera á varðbergi gagnvart:
· Ofnæmisviðbrögð þegar lyfin eru gefin. Oftast væg og láta vel undan einfaldri meðferð.
· Bjúgmyndun í heila hjá um fjórðungi sjúklinga. Flestir finna ekki fyrir þessu og þetta gengur venjulega til baka án meðferðar en stundum þarf þó að stöðva lyfjagjöfina.
· Smáblæðingar í heila (microbleeds) hjá um fjórðungi sjúklinga. Flestir finna ekki fyrir neinu en blæðingarnar sem eru um 1 mm í þvermál sjást á segulómun. Einstaka þátttakendur hafa fengið stærri blæðingar og er þetta því mesta áhættan.
Af þessum sökum verða lyfin aðeins gefin á göngudeildum spítala og einnig verður mælt með að reglulega verði gerð segulómun af heila. Ekki er ljóst hversu lengi þarf að fylgjast með meðferðinni á þennan hátt, hugsanlega aðeins fyrsta árið.
Bæði lyfin hafa aðeins verið prófuð á þeim sem hafa væg einkenni sjúkdómsins, annað hvort á stigi vægrar vitrænnar skerðingar eða vægrar heilabilunar. Það er ekki vitað hvort lyfin hafa áhrif síðar í sjúkdómnum.
Áður en meðferð hefst þurfa að liggja fyrir upplýsingar um uppsöfnun á amyloid próteinum í heila, annað hvort með mælingu úr mænuvökva eða með jáeindaskanna. Einnig þarf að meta vel áhættu hvers og eins fyrir hugsanlegum aukaverkunum.
Það er ekki vitað hversu lengi þarf að gefa lyfin en í tilfelli donanemab var hætt að gefa lyfið þegar amyloid var að mestu farið úr heilanum. Það er líklegt að ekki þurfi að gefa lyfin að staðaldri en hugsanlega í nokkra mánuði í senn. Þetta er eitt af því sem á eftir að koma í ljós.
Bæði lyfin eru líftæknilyf sem gefa þarf í æð, lecanemab á tveggja vikna fresti en donanemab á mánaðar fresti.
Lecanemab kemst fyrr á markað, um næstu áramót í Evrópu en donanemab seinni hluta 2024 að því gefnu að lyfjastofnun Evrópu mæli með skráningu þeirra.
Að því gefnu að lyfin verði samþykkt til notkunar hér á landi og að kostnaðarþátttaka hins opinbera verði samþykkt verður komið upp aðstöðu til lyfjagjafar, væntanlega á minnismóttöku Landakots. Það er ekki ljóst hvert umfangið verður og því ekki vitað hversu margir fá meðferð í fyrstunni og verður þetta það vafalaust töluverð áskorun.
Hvað sem þessu öllu líður er ljóst að við erum að sjá fram á nýja möguleika til að meðhöndla sjúkdóm þar sem engin áhrifarík meðferð hefur verið til.