Vel heppnuð fræðsluferð á Austfirði
2. maí 2025
Það var vel tekið á móti okkur á Austfjörðum þar sem við héldum nýverið nokkur fræðsluerindi. Fræðsla er mikilvægur hluti af starfi samtakanna og gegnir lykilhlutverki í að auka þekkingu og skilning á heilabilunarsjúkdómum. Slík þekking er afar mikilvæg til að draga úr fordómum og stuðla að betra samfélagi.
Fyrsti áfangastaður – Seyðisfjörður
Ásta Kristín Guðmundsdóttir, ráðgjafi samtakanna, og Thelma Jónsdóttir, fræðslustjóri, hófu ferðina með opnu fræðsluerindi á Seyðisfirði. Þar starfa tveir Alzheimertenglar sem aðstoðuðu m.a. við skipulagningu ferðarinnar. Fundurinn tókst vel og sköpuðust góðar og einlægar umræður.
Tveir fyrirlestrar á Reyðarfirði
Næst lá leiðin til Reyðarfjarðar. Fyrsti fundurinn þar var með starfsfólki í heimaþjónustu og heimahjúkrun í Fjarðabyggð. Miklar og áhugaverðar umræður sköpuðust og voru fundargestir þakklátir og ánægðir eftir fróðlegan og uppbyggilegan fund.
Síðar sama dag var haldið opið fræðsluerindi sem var vel sótt af aðstandendum einstaklinga með heilabilun og öðrum áhugasömum. Þar tóku einnig til máls teymisstjórar sameinaðs teymis heimahjúkrunar og heimaþjónustu í Fjarðabyggð og lýstu þjónustu sinni við einstaklinga með heilabilun.
Nýir Alzheimertenglar
Ferðir eins og þessar eru okkur ákaflega mikilvægar en þá myndum við oft góð tengsl og margir leita til okkar í kjölfarið eftir ráðgjöf og stuðning. Í þetta sinn gengu tveir nýir Alzheimertenglar í Fjarðarbyggð til liðs við okkur, eitthvað sem við fögnum mjög. Þeir munu eflaust stuðla að aukinni fræðslu og stuðningi í sinni heimabyggð.
Takk fyrir okkur
Við þökkum öllum sem tóku á móti okkur og hlýddu á okkur í þessari ferð. Það var ánægjulegt að finna fyrir áhuga og þakklæti, sem er góð hvatning í okkar mikilvæga starfi.
Ef áhugi er á að fá fræðsluerindi frá Alzheimersamtökunum, er velkomið að hafa samband á netfangið alzheimer@alzheimer.is
Myndband
Við útbjuggum stutt myndband um ferðina okkar sem má horfa á hér