Nýjung í greiningu á Alzheimer sjúkdómi

3. desember 2025

Jón Snædal öldrunarlæknir skrifar:

Í nóvember 2025 var lokið öllum undirbúningi fyrir mælingu á svokölluðu p-tau-217 próteini úr blóðsýni á rannsóknastofu Landspítalans. Búið er að setja beiðni um þetta tiltekna blóðsýni inn í kerfi spítalans og geta því læknar minnismóttökunnar pantað hana á sama hátt og aðrar blóðprufur. Það þarf að vísu að vera fastandi þegar blóðið er tekið og þarf því væntanlega að koma sérstaka ferð í blóðrannsóknina en sýnið er þó hægt að taka á Landspítalanum við Hringbraut eða í Fossvogi auk Landakots. Þetta verður mælt einu sinni í viku og biðin eftir svari verður því oftast ekki lengri en vika.

Rannsóknir undanfarandi ára benda til þess að aðferðin sé ábyggileg og að í yfir 80% tilvika sé niðurstaðan afdráttarlaus, annað hvort til stuðnings Alzheimer greiningu eða að niðurstaðan sýni að sjúkdómurinn sé mjög ólíklegur. Í um 20% tilvika er niðurstaðan ekki eins afgerandi og þá þarf meira til, annað hvort með skoðun á mænuvökva eða greining með jáeindaskanna.

Fyrstu mánuðina hið minnsta munu læknar minnismóttökunnar skoða niðurstöður blóðsýnis til hliðsjónar við niðurstöður úr mænuvökvasýnum þannig að þeirri rannsókn fækkar ekki til að byrja með. Það er hins vegar hugsanlegt að blóðsýni komi í staðinn fyrir töku á mænuvökva þegar fram líða stundir ef niðurstaðan er afdráttarlaus og að því gefnu að rannsóknin reynist jafn ábyggileg og vísindarannsóknir hafa sýnt.

Í bígerð er að koma einnig á mælingum á mænuvökvasýnum á rannsóknstofu Landspítalans og þá mun biðin eftir svari styttast úr um fjórum vikum í eina. Greining á Alzheimer sjúkdómi verður því í framtíðinni styttri og í mörgum tilvikum einfaldari.

Það er áhugi á að skoða hvort aðferðin geti greint sjúkdóm í einstaklingum sem hafa engin einkenni en um það er enn deilt. Það verður að minnsta kosti ekki gert fyrr en hægt er að bjóða upp á meðferð hjá þeim sem hafa jákvætt sýni en engin einkenni en ekki er ljóst hvenær það getur orðið.

Vantar þig aðstoð?

Vantar þig aðstoð?