Mikilvæg fræðsla um nýtt örorkulífeyriskerfi

14. janúar 2026

Haustið 2025 tóku í gildi víðtækar breytingar á örorkulífeyriskerfi almannatrygginga. Í vinnuhópi einstaklinga með heilabilun, sem Alzheimersamtökin starfrækja, kom fram ósk um fræðslu um þessar breytingar og hvernig ætti að fylla út tekjuáætlun.

Í því skyni fengum við Gunnar Alexander Ólafsson, hagfræðing og sérfræðing hjá Öryrkjabandalaginu (ÖBÍ), til að halda fræðsluerindi um nýja kerfið og helstu breytingar þess.

Einfaldara og betra kerfi

Gunnar Alexander fór yfir nýja örorku- og endurhæfingarlífeyriskerfið og lagði áherslu á að það væri bæði einfaldara og betra en áður. Í stað þess að byggja fyrst og fremst á mati á óvinnufærni er nú lögð meiri áhersla á stuðning, samvinnu þjónustuaðila og virkni.

Helstu breytingar eru meðal annars:

• Í nýju kerfi er litið til þess hvað fólk getur, fremur en hvað það getur ekki.

• Kerfið er einfaldara í uppbyggingu en áður.

• Örorku- og endurhæfingarlífeyrisgreiðslur hafa verið hækkaðar.

• Dregið hefur verið úr tekjutengingum.

• Stuðningur við fólk í endurhæfingu hefur verið aukinn

• Áhersla lögð á að koma í veg fyrir að fólk falli milli kerfa og endi með ótímabært örorkumat.

Framfærsla og tekjuáætlun

Í erindinu fór Gunnar Alexander einnig yfir framfærslu í kjölfar greiningar á heilabilun. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að halda vel utan um tímalínu mála og nýta fyrst veikindarétt hjá vinnuveitanda og stéttarfélagi áður en sótt er um samþætt sérfræðimat og í framhaldinu örorkumat.

Þá fjallaði hann um tekjuáætlun og útskýrði hvað telst til tekna, hvað hefur áhrif á örorkulífeyri og hvað ekki. Að lokum hvatti hann fólk til að halda vel utan um öll sín gögn og leita sér aðstoðar ef óvissa er til staðar, hvort sem það er hjá Skattinum, Tryggingastofnun, Öryrkjabandalaginu eða Alzheimersamtökunum.

Upptaka

Við þökkum Gunnari Alexander kærlega fyrir góða og gagnlega fræðslu. Erindið hans var tekið upp og og hvetjum við þau sem komust ekki til að horfa á upptökuna.

Vantar þig aðstoð?

Vantar þig aðstoð?