Leiðbeiningar um siðferðilega notkun tækni

22. janúar 2026

Alzheimer Europe kynnti í vikunni skjal með leiðbeiningum um siðferðislega notkun tækni. Skjalið var unnið af vinnuhópi einstaklinga með heilabilun og vinnuhópi aðstandenda en í báðum hópum eigum við Íslendingar fulltrúa.

Tækni getur stutt fólk með heilabilun í ákveðnum þáttum daglegs lífs. Hún getur hjálpað því að yfirstíga ýmsar hindranir og áskoranir sem stafa ekki einungis af skerðingum einstaklingsins, heldur einnig af því hvernig samfélagið er skipulagt. Þetta getur falið í sér tækni sem er sérstaklega þróuð til að mæta þörfum sem tengjast heilabilun. Það getur einnig átt við tækni sem var ekki þróuð sérstaklega fyrir fólk með heilabilun. Sum tækni getur verið styrkjandi, stuðlað að sjálfstæði og í sumum tilfellum veitt aðstandendum og umönnunaraðilum stuðning.

Hins vegar skapar sum tækni einnig frekari áskoranir. Fólk með heilabilun á oft engan annan kost en að nota tækni, ella er það útilokað frá ákveðnum þáttum í samfélaginu. Tækni gerir ekki líf allra auðveldara og er mikilvægt að gera viðeigandi aðlaganir og grípa til aðgerða til að tryggja að fólk með heilabilun hafi sömu réttindi og tækifæri og aðrir í samfélaginu.

Þetta skjal var þróað með það að markmiði að hvetja til ígrundunar, auka vitund og vonandi stuðla að breytingum hvað varðar þróun og notkun fjölbreyttrar tækni. Meðlimir vinnuhópana bentu á átta lykilatriði sem þau töldu sérstaklega mikilvæg og viðeigandi.

Vantar þig aðstoð?

Vantar þig aðstoð?