Góðar móttökur á Snæfellsnesi
29. ágúst 2025
Ferð okkar á Snæfellsnesið í vikunni var einstaklega vel heppnuð. Ásta Kristín Guðmundsdóttir, ráðgjafi samtakanna, og Thelma Jónsdóttir, fræðslustjóri héldu þar fimm fræðsluerindi um starf Alzheimersamtakanna og heilabilun og samskipti, þar af tvö fyrir fagfólk starfandi á svæðinu. Þá var Laufey Jónsdóttir, tengiráðgjafi Gott að eldast verkefnisins á Vesturlandi með áhugavert og þarft innlegg á fundunum sem voru fyrir almenning.
Í heildina sóttu vel yfir 100 manns fræðslufundina.
Tveir fundir í Snæfellsbæ
Fyrsti áfangastaður var Ólafsvík, nánar tiltekið Klif félagsheimili, þar sem við héldum tvö erindi. Það fyrra var fyrir starfsfólkið á hjúkrunarheimilinu Jaðri, heilsugæslunarinnar sem og starfsfólk í félagsþjónustu og sköpuðust þar góðar umræður. Seinna um daginn var opinn fundur fyrir íbúa í Snæfellsbæ sem var vel sóttur og ýmsar spurningar og vangaveltur sem komu fram. Þá ákvað einn gestur fundarins að taka það að sér að hafa samband við bæjarstjórann og óska eftir því að koma upp fjólubláum bekk í Snæfellsbæ.
Góðar umræður í Grundarfirði
Um kvöldið héldum við í Samkomuhúsið á Grundarfirði og héldum fund sem var öllum opinn. Þar fjallaði Laufey meðal annars um hvað hægt er að gera sem samfélag til að sporna gegn einmannaleika og aðstoða einstaklinga með heilabilun og aðstandendur þeirra.
Eftir fundinn skapaðist góð umræða og við gátum veitt nokkrar ráðleggingar og tókum við góðum ábendingum.
Húsfyllir í Stykkishólmi
Seinni dag ferðar okkar vorum við í blíðskaparveðri í Stykkishólmi. Byrjuðum á að tilla okkur á fína fjólubláa bekkinn þar í bæ áður en við héldum erindi fyrir starfsfólk hjúkrunarheimilisins Systraskjóls, heimahjúkrunar og starfsfólk félagsþjónustunnar. Hann var ákaflega vel sóttur og þétt setið í sal bæjarstjórnar. Þar var jafnframt með okkur Guðrún Magnea, Alzheimertengill í Stykkishólmi.
Ferðin endaði með húsfylli í félagsmiðstöðinni Höfðaborg í Stykkishólmi. Sá fundur var einstaklega vel heppnaður og í lokin mátti skynja mikið þakklæti meðal hópsins sem gleður okkur alltaf einstaklega mikið.
Takk fyrir okkur
Ferðir eins og þessar eru okkur ákaflega mikilvægar en við leggjum mikið upp úr því að veita fræðslu sem víðast um landið. Þá er það einnig okkar reynsla að í kjölfarið leitar fólk til okkar eftir ráðgjöf og stuðning.
Við þökkum Laufey einnig sérstaklega fyrir samveruna og að aðstoða okkur við að skipuleggja ferðina.
Kærar þakkir til allra sem hlýddu á okkur í þessari ferð. Við fundum fyrir hlýhug og þakklæti sem styrkir okkur í þessu mikilvæga starfi.
Ef áhugi er á að fá fræðsluerindi frá Alzheimersamtökunum, er velkomið að hafa samband á netfangið alzheimer@alzheimer.is
Myndband
Við útbjuggum stutt myndband um ferðina okkar sem má horfa á hér