Er maki þinn með heilabilunarsjúkdóm og býr á hjúkrunarheimili?
3. febrúar 2025
Við Háskólann á Akureyri er að hefjast rannsókn sem ber heitið „Reynsla aldraðra af því að eiga maka með heilabilunarsjúkdóm á hjúkrunarheimili." Rósa Jóhannesdóttir, hjúkrunarfræðingur gerir rannsóknina til meistaragráðu í heilbrigðisvísindum.
Skortur á íslenskum rannsóknum
Heilabilunarsjúkdómar eru algeng ástæða fyrir því að fólk þarf að flytja á hjúkrunarheimili. Sú staða getur komið upp hjá hjónum eða sambúðaraðilum að annar aðilinn hefur misst heilsuna og þarf að flytjast á hjúkrunarheimili. Þetta hefur í för með sér miklar breytingar á högum beggja. Erlendar rannsóknir sýna að þörfum hópsins sé sinnt að takmörkuðu leyti af fagfólki en því miður skortir íslenskar rannsóknir um efnið.
Viltu taka þátt?
Verið er að leita að einstaklingum til að taka þátt í þessari íslensku rannsókn. Um er að ræða viðtalsrannsókn þar sem könnuð verður líðan og þarfir einstaklinga sem eiga maka sem býr á hjúkrunarheimili. Þátttakendur eru boðaðir í eitt til tvö viðtöl, lengd fyrra viðtalsins verður um 45-60 mínútur en hins seinna um 20 mínútur.
Óskað er eftir viðmælendum 67 ára og eldri. Miðað er við að makinn hafi búið á hjúkrunarheimili í a.m.k. sex mánuði og sé með heilabilunarsjúkdóm.
Fyllsta trúnaðar og nafnleyndar verður gætt og allar upplýsingar ópersónugreinanlegar og órekjanlegar. Þeir sem taka þátt í rannsókninni geta hætt við hvenær sem er.
Vert er að ítreka að niðurstöður rannsóknarinnar gætu haft mikið notagildi fyrir bæði einstaklinga í þessari stöðu og fagaðila.
Hafa samband
Áhugasamir mega gjarnan hafa samband við Rósu á netfangið ha120557@unak.is eða í síma 866 4469. Einnig má hafa samband við Dr. Kristínu Þórarinsdóttur, dósent við HA sem jafnframt er ábyrgðarmaður rannsóknarinnar á netfangið kristin@unak.is eða í síma 863 5757.
Þær geta svarað öllum spurningum varðandi rannsóknina og sent kynningarbréf þar sem fram koma nákvæmari lýsingar um hvað felst í þátttöku, réttur þátttakenda og hvernig trúnaður er tryggður.