Minningarorð

23. september 2024

Alzheimersamtökin kvöddu á dögunum góðan félaga og ötulan talsmann.

Árni Sverrisson settist í stjórn FAAS (Félag aðstandenda alzheimersjúklinga og skyldra sjúkdóma) árið 2013 og 2014 var hann kjörinn formaður þess félags.

Eitt það fyrsta sem hann beitti sér fyrir ásamt stjórn var breyta nafni samtakanna FAAS sem þótti óþjált sem og að búa til nýtt lógó og var nafninu breytt í Alzheimersamtökin á Íslandi og þá var farið að ræða um skjólstæðinga í stað sjúklinga. Árni Sverrisson var formaður FAAS og síðan Alzheimersamtakanna frá 2014 – 2021 en sat áfram í stjórn til ársins 2024 er hann sagði af sér vegna heilsubrests.

Árni Sverrisson átti stóran þátt í því að opna umræðuna um Alzheimer og aðra heilabilunar sjúkdóma sem voru flokkaðir sem öldrunarsjúkdómar þrátt fyrir að einstaklingar allt niður í fertugt greindust með þá. Það breyttist í tímans rás, þökk sé ötulum talsmönnum og í dag eru þessir sjúkdómar skilgreindir sem taugasjúkdómar.

Sem formaður Alzheimersamtakanna sótti Árni fundi erlendis með systursamtökum okkar á Norðurlöndum og samtökum evrópskra félaga. Þangað sótti hann þekkingu á helstu nýjungum á sviði Alzheimer og annara heilabilunar sjúkdóma  sem hann miðlaði til annarra og ekki síst myndaði hann mikilvæg tengsl sem gagnast Alzheimersamtökunum enn í dag.

Árni Sverrisson brann fyrir málstaðinn og talaði lengi fyrir því að Ísland mótaði sér stefnu í málefnum fólks með heilabilun og það varð að veruleika því stefna heilbrigðisyfirvalda leit dagsins ljós árið 2020.

En Árni átti sér einnig þann draum að koma Alzheimersamtökunum í „eigið húsnæði“ og efla þar þjónustu og fræðslu fyrir skjólstæðinga og aðstandendur þeirra en ekki síst fyrir yngra fólk og þá sem eru nýgreindir með heilabilunar sjúkdóma. Skemmst er frá því að segja að á vordögum 2022 fluttu samtökin í Lífsgæðasetur St. Jó í Hafnarfirði og opnuðu í framhaldinu Seigluna, þjónustumiðstöð fyrir einstaklinga á fyrstu stigum heilabilunar. Þessi áfangi hefði ekki orðið að veruleika nema vegna ötula talsmanna, höfðingslegs framlags Styrktar – og líknarsjóðs Oddfellowreglunnar á Íslandi sem og bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði fyrir að hafa kjark til að gera St. Jó að Lífsgæðasetri.

Árni Sverrisson vann mikið og óeigingjarnt starf fyrir Alzheimersamtökin á Íslandi og hann var laginn við að fá með sér til stjórnarstarfa einstaklinga sem voru og eru reiðbúnir að leggja samtökunum lið. Árna er þakkað það mikla og ómetanlega starf sem hanna vann fyrir Alzheimersamtökin á Íslandi.

Stjórn og starfsfólk Alzheimersamtakanna kveðja Árna Sverrisson með þökk og virðingu og senda fjölskyldu hans sínar dýpstu samúðarkveðjur.

Vantar þig aðstoð?

Vantar þig aðstoð?