Aðstandendur fylltu húsið – mikil eftirspurn eftir fræðslu og stuðningi

20. nóvember 2025

Vegna mikilla vinsælda fengum við Brynhildi Jónsdóttur, sálfræðing, til að endurtaka fyrirlesturinn sinn um aðstandendur og helstu áskoranir á ólíkum stigum. Þörfin reyndist greinilega mikil en fullt var út úr dyrum, í orðsins fyllstu merkingu, og einhverjir þurftu því miður frá að hverfa. Fyrirlesturinn var þó tekinn upp og hægt er að nálgast hann hér að neðan.

Áskoranir á mismunandi stigum og mikilvægi sjálfsumhyggju

Brynhildur fór yfir helstu áskoranir aðstandenda frá fyrstu grunsemdum og greiningarferli, í gegnum dagþjálfun og hvíldarinnlagnir, og allt til flutnings á hjúkrunarheimili. Í þessu ferli þurfa fjölskyldur að takast á við margar krefjandi aðstæður og áskoranir. Þá talaði hún einnig um nánd, breytt hlutverk, flóknar tilfinningar sem þarf að vinna úr og mikilvægi þess að aðstandendur hlúi að eigin líðan.

Reynslusögur og lifandi umræður

Brynhildur hefur í starfi sínu með stuðningshópum og í sálfræðiviðtölum öðlast dýrmæta innsýn í reynslu aðstandenda og deildi hún fjölmörgum dæmum úr starfi sínu.

Eftir erindið komu fram margar góðar og málefnalegar spurningar úr þéttsetnum salnum, meðal annars um heimsóknir í hvíldarinnlögnum, sektarkennd í kjölfar flutnings á hjúkrunarheimili, hvort hún hverfi einhvern tímann og hvernig best er að halda jólin þegar mikið hefur breyst. Brynhildur svaraði af mikilli næmni og hvatti fólk jafnframt til að nýta stuðningshópana til að hitta aðra í svipuðum aðstæðum.

Endurtekning og upptaka í boði

Ljóst er að þörfin á þessu fyrirlestri er mikil og við höfum því ákveðið að endurtaka hann reglulega. Þeir sem komust ekki að þessu sinni geta þó vissulega horft á upptökuna með því að smella á hlekkinn hér að neðan.

Við þökkum Brynhildi innilega fyrir þetta mjög svo þarfa erindi.

Vantar þig aðstoð?

Vantar þig aðstoð?