Sérhæfð dagþjálfun

Á landsvísu eru sérhæfðar dagþjálfanir fyrir fólk með heilabilun. Allar eru reknar með sama markmiði, að gera einstaklingum með heilabilun kleift að búa sem lengst heima og viðhalda sjálfsbjargargetu eftir föngum. Þjónusta er sniðin að þörfum, áhuga og getu hvers einstaklings. Sveigjanleiki er lykilhugtak í þjónustunni. Fáðu upplýsingar hjá heimilislækni viðkomandi hvaða þjálfun er í boði í hans nær umhverfi. Það sem er sérstakt við biðlista eftir dagþjálfun er að fæstir þeirra sem á honum eru hafa óskað eftir því sjálfir heldur er það til komið vegna mats fagfólks og/eða óska ættingja. Það getur því komið upp viðkvæm staða þegar sjúklingi er boðið að koma í dagþjálfun og stundum hafnar hann því alveg.  Reynslan sýnir að mikilvægt er að fólk komi hvorki of snemma né of seint í dagþjálfun. Ekki er þörf á dagþjálfun fyrir einstakling sem enn er virkur og vel sjálfbjarga með að stunda sín áhugamál. Ef dagþjálfum hefst hins vegar seint í sjúkdómsferlinu eru líkur á að erfitt sé orðið að ná til persónunnar bak við sjúkdóminn. Það torveldar einstaklingsmiðaða þjónustu og rýrir þar með gagnsemi hennar. Þótt fullnægjandi vísindarannsóknir vanti má fullyrða að þessi þjónusta er mikilvæg fyrir sjúklinga, aðstandendur þeirra og samfélagið. Meðaltími í dagþjálfun er um eitt og hálft ár og á hverjum tíma eru 10-20% af þeim sem þar eru metnir í þörf fyrir hjúkrunarrými. Það er afar líklegt að flestir þeirra væru inniliggjandi á sjúkrahúsi í bið eftir hjúkrunarrými ef þessi þjónusta væri ekki í boði.

Vantar þig aðstoð?

Vantar þig aðstoð?