RÁÐGJAFASÍMINN
520 10 82
SENDA
MINNINGARKORT
GERAST
FÉLAGI
Innkaupakerra
Hugmyndafræði Alzheimersamtakanna

Tom Kitwood

Tom Kitwood var frumkvöðull á sviði rannsókna á heilabilun. Hann helgaði líf sitt rannsóknum á sálfélagslegum þáttum sem hafa áhrif á þróun heilabilunar. Megináhersla hans var alla tíð að einstaklingurinn væri það sem skipti mál og að rannsóknarniðurstöður yrðu að skila sér í daglegt starf með fólki með heilabilun. Hann var fæddur í Boston 1937 og lést 1998. Bók hans Dementia Reconsidered: the person comes first sem kom út árið 1997 er samantekt á öllu efni sem hann hafði áður gefið út. 

 

Bókin heitir á íslensku Ný sýn á heilabilun: Einstaklingurinn í öndvegi og kom út árið 2007. Svava Aradóttir hjúkrunarfræðingur þýddi.

Bókina má kaupa í netverslun með því að smella hér


Ný sýn á heilabilun

Hugmyndafræði Tom Kitwood byggir á þeirri grundvallar hugsun að umönnun starfsfólks hafi afgerandi þýðingu fyrir þróun heilabilunarferlisins hjá hverjum einstökum einstaklingi. Grunnhugsunin byggir á þeim ákveðna skilningi á heilabilunarsjúkdómunum að um sé að ræða meira en eingöngu skerðingu á skilvitlegri starfsemi heilans. Samkvæmt kenningum Kitwoods er birtingarmynd sjúkdómsins samspil 5 mikilvægra aðalþátta sem setja má fram þannig:

 

  • P (persónuleiki) = bjargráð og varnarviðbrögð einstaklingsins
  • B (lífssaga) = lífsreynsla og afleiðingar af breyttum lífsskilyrðum
  • H (heilsufar) = líkamlegt ástand einstaklingsins og styrkur skynjunar  
  • N (taugafrumuskaði) = breytingar í frumum heilans
  • S (félagssálfræði) = skilyrði/aðstæður í umhverfi einstaklingsins, t.d. hvernig samveru hans við starfsfólk og aðstandendur er háttað

 

Tom Kitwood lítur þannig á heilabilunarsjúkdóma sem afleiðingu af flóknu samspili margra þátta: P, B, H, N og S. Félasgssálfræðin vekur þó sérstakan áhuga hans, þ.e. skilyrðin í umhverfinu, t.d. umönnun starfsfólks og aðstandenda þar sem hægt er að breyta þeim þætti til hagsbóta fyrir líðan hins sjúka einstaklings.

Samkvæmt Tom Kitwood er heilabilun sjúkdómur sem hefur í för með sér skerðingu á ákveðinni færni og skapgerðar- og framkvæmdamynstur breytist. Meðal annars þá bilar minnið og afleiðing þess verður, að einstaklingurinn missir hluta af færni sinni til þess að skipuleggja og sjá fyrir afleiðingar gerða sinna og annarra.

Tom Kitwood telur að út frá sálfræðilegum forsendum, megi líka túlka breytt framkvæmdamynstur sem afleiðingu af missi á bjargráðum einstaklingsins, sálfræðilega séð megi túlka breytta framkomu og framkvæmdarmöguleika einstaklingsins sem afleiðingu af því úrræðaleysi sem fylgir sjúkdómunum og minnkandi sálfræðilegum vörnum. Breytingin sem verður á framkvæmdarmöguleikum einstaklingsins geta til dæmis lýst sér með reiði yfir sjúkdómnum eða ótta um að verða öðrum byrði.

Mæti umhverfið ekki einstaklingnum með skilningi, virðingu og umhyggju í tengslum við upplifun hans, er hætta á að hann þrói með sér ástand sem einkennist af hræðslu og reiði sem ekki beinist að neinu sérstöku. Fái þetta ástand að þróast án þess að gripið sé í taumana, endar einstaklingurinn í eins konar kulnun sem meðal annars einkennist af  örvæntingu, þunglyndi og sinnuleysi.

 

VEFTRÉ
W:
H: