Sem dæmi um útfærslu á persónumiðaðri umönnun fólks með heilabilun má nefna Eden hugmyndafræðina (e. The Eden Alternative) sem byggir á hugmyndum öldrunarlæknisins Dr. William H. Thomas. Öldrunarlæknirinn Allen Power hefur varið stórum hluta starfsævi sinnar í að kynna hugmyndafræðina. Hann hefur skrifað tvær bækur um efnið; Dementia Beyond Disease og Dementia Beyond Drugs. Smellið hér til að lesa nánar um Al Power. Smellið hér til að opna heimasíðu Eden Alternative á Íslandi. Þrjú hjúkrunarheimili á Íslandi hafa hlotið vottun sem Eden heimili. Hlíð og Lögmannshlíð á Akureyri og Mörk í Reykjavík.
Annað dæmi er Namaste hugmyndafræðin (e. Namaste Care) sem félagsráðgjafinn Joyce Simard, MSW þróaði til að auka vellíðan fólks með langt genginn heilabilunarsjúkdóm. Meðferðinni er ætlað að auka vellíðan Það felur meðal annars í sér handa- og fótaþvott með nuddi, andlitsþvott, rakstur og húðhirðu. Unnið er með skynfæri einstaklinga og þeir örvaðir á ákveðinn hátt. Það skilar sér í betri líðan, meiri ró og minni þörf á lyfjum. Namaste hugmyndafræðin er meðal annars notuð á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ og hjúkrunardeild fyrir fólk með heilabilun á Landakoti, L4.
Viðurkennandi nálgun (e. validation method) sem annar félagsráðgjafi Naomi Feil, MSW hefur þróað og snýst um samskipti við fólk með heilabilun á öllum stigum sjúkdómsins. Aðferðin er töluvert notuð á hjúkrunarheimilum í Bandaríkjunum. Smellið hér til að sjá dæmi um notkun aðferðarinnar.
VIPS aðferðafræðin (e. VIPS framework) er þróuð af sálfræðingnum Dawn Brooker, PhD. ásamt fleirum. Hún hefur innleitt hana í samvinnu við aðra sérfræðinga við University of Worcester í Bretlandi. Skammstöfunin stendur fyrir „Values people, Individual needs, Perspective of service user, Supportive social psychology“. Á íslensku myndi það útleggjast gróflega sem metur fólk, einstaklingsmiðaðar þarfir, sjónarmið notanda, styðjandi sálfélagsleg nálgun. Smellið hér til að lesa nánar um VIPS.