RÁÐGJAFASÍMINN
520 10 82
SENDA
MINNINGARKORT
GERAST
FÉLAGI
Innkaupakerra
Fræðsla - Stuðningur - Samstarf

Ráðgjöf

Markmið Alzheimersamtakanna er að miðla upplýsingum til fólks með heilabilun, aðstandenda, fagaðila og annarra sem láta sig málefnið varða. 

Sigurbjörg Hannesdóttir, iðjuþjálfi, starfar sem fræðslustjóri Alzheimersamtakanna og sinnir jafnframt ráðgjöf á skrifstofu samtakanna í Setrinu, Hátúni 10 í Reykjavík. Boðið er upp á ráðgjafa- og stuðningsviðtöl fyrir einstaklinga og hjón/pör og fjölskyldufundi ef fleiri vilja koma saman.  

Ekki skiptir máli hvar í ferlinu einstaklingur eða fjölskylda er stödd þegar pantað er viðtal. Fyrir þá sem ekki eiga heimangengt eða búa utan höfuðborgarsvæðisins má hringja og óska eftir ráðgjafaviðtali í gegnum síma eða fjarfundarbúnað. 

Ráðgjöfin er frí fyrir félagsmenn en aðrir greiða 5.000 kr. fyrir viðtalið. Við bendum á að það má ganga í Alzheimersamtökin með því að smella hér. 

Ráðgjafarsími Alzheimersamtakanna er 520 1082 og er hann opinn mánudaga til fimmtudaga kl. 09:00 - 16:00.  

Einnig er hægt að senda fyrirspurnir á netfangið alzheimer[hjá]alzheimer.is


Lögfræðiráðgjöf

Alzheimersamtökin bjóða félagsmönnum sínum lögfræðiráðgjöf þeim að kostnaðarlausu.

Eingöngu er um að ræða lögfræðiráðgjöf, en ekki rekstur mála eða skjalagerð. Nauðsynlegt er að panta tíma í síma 533 1088.


Ráðgjöfin fer fram í fundarherbergi samtakanna í Setrinu, Hátúni 10 tvo þriðjudagsmorgna í mánuði. Boðið er uppá símaráðgjöf fyrir þá sem búa utan höfuðborgarsvæðisins.


Við getum ekki enn tekið ákvörun um dagsetningu á næsta Alzheimerkaffi, en við vonumst svo sannarlega til að geta tekið upp þráðinn í vetur.

Alzheimer kaffi

Víða í Evrópu eru rekin svokölluð Alzheimer Café sem eru í raun um tveggja tíma viðburður þar sem fram fer fræðsla, spjall, kaffi, hljóðfæraleikur og gjarnan söngur. Hugmyndin er ættuð frá Hollandi. Þar í landi eru starfrækt um 200 slík kaffihús.

Alzheimer kaffi í félagsmiðstöðinni í Hæðargarði er ætlað fólki með Alzheimer og skylda sjúkdóma og aðstandendum þeirra og vinum. Tilgangurinn er að gefa fólki tækifæri til að koma saman, þar sem þeirra þörfum er mætt og opna umræðu um erfiðleika fólks með þennan sjúkdóm. Einnig að vera vettvangur fyrir nýjungar og þróun.

Við lítum sérstaklega til þeirra sem eru á biðlista eftir dagþjálfun en það eru yfir 100 manns á Stór-Reykjavíkursvæðinu auk þeirra sem  greinast um og eftir miðjan aldur með þennan sjúkdóm og hafa fá eða engin úræði. Við viljum gefa  þeim og aðstandendum þeirra kost á að hitta aðra sem glíma við svipaðan vanda.

Alzheimer Kaffi er fyrir fólk með Alzheimer og skylda sjúkdóma og aðstandendur þeirra.

Dagskrá: Spjall - Fræðsla - Kaffi - Söngur með undirleik
Aðgangseyrir kr. 500.- kaffi innifalið
Ekki þarf að skrá sig, bara mæta á staðinn.

Félagsmiðstöðin Hæðargarði 31, 108 Reykjavík

Næsta kaffi má finna undir viðburðir

Fræðslufundir

Fræðslufundir og fyrirlestrar eru haldnir í nafni samtakanna hjá ýmsum félögum og stofnunum.

Reglulegir fræðslufundir eru haldnir yfir vetrartímann í sal Setursins, þar sem skrifstofa Alzheimersamtakanna er staðsett, í Setrinu Hátúni 10, 105 Reykjavík.

Allir fyrirlestrar eru auglýstir á viðburðadagatali okkar. 

Glærur og upptökur af öllum fræðslufundum má nálgast bæði á Facebook-síðu samtakanna og YouTube rás. Smellið á orðin til að opna viðeigandi hlekki. Stuðningshópar

Frá því í janúar 2017 hafa Alzheimersamtökin staðið fyrir stuðningshópum fyrir aðstandendur fólks með heilabilun tvisvar í mánuði. Frá og með október 2019 hafa Alzheimersamtökin staðið fyrir stuðningshóp fyrir „yngri“ afkomendur fólks með heilabilun einu sinni í mánuði. Allir aðstandendur fólks með heilabilun eru hvattir til að koma og spjalla. Ekki þarf að skrá sig og aðgangur er ókeypis.

Aðstandendur eru fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir en á það sameiginlegt að eiga ástvin heima, í dagþjálfun eða á hjúkrunarheimili. Hóparnir byggjast á hugmyndafræði jafningjastuðnings og er markmiðið með samverunni að hittast, spjalla og deila reynslunni. Stuðningur annarra í svipuðum aðstæðum getur bætt líðan og dregið úr streitu.

Allir stuðningshópar eru auglýstar í viðburðadagatali okkar. 

Vinnuhópur fólks með heilabilun

Hópurinn starfar að Evrópskri fyrirmynd og er eingöngu ætlaður fólki með heilabilun. Markmið hópsins er að vekja athygli á og vinna að mannréttindum fólks með heilabilun svo raddir fólks með heilabilun heyrist í samfélaginu.
Vinnuhópurinn hittist reglulega og er í samstarfi við Alzheimersamtökin varðandi not á húsnæði og fundarstjórnun. Vinnuhópurinn velur sér formann og varaformann. Ef þú ert með heilabilunarsjúkdóm og vilt vinna að málefnum fólks með heilabilun þá hafðu samband við okkur á alzheimer@alzheimer.is
Nánari upplýsingar er hægt að fá hjá starfsmönnum samtakanna. 


Samstarf við Minnismóttöku

Alzheimersamtökin og Minnismóttaka LSH á Landakoti deila því markmiði að vilja tryggja fólki með heilabilun og aðstandendum þeirra bestu mögulegu þjónustu á hverjum tíma og greitt aðgengi að upplýsingum. 

Samstarf samtakanna við Minnismóttökuna felst meðal annars í mánaðarlegum samráðsfundum.

 

                                                 

 

 

 

Fræðsla fyrir aðstandendur fólks með heilabilun

Fræðslufundur á vegum Minnismóttöku Landspítalans á Landakoti í sal Alzheimersamtakanna í nóvember 2016.
Smellið á titil til að opna fyrirlestur. 

Heilabilun; orsakir, einkenni og ýmis ráð

Guðrún Karlsdóttir hjúkrunarfræðingur /
deildarstjóri minnismóttökunnar á Landakoti


Dagleg iðja, aðlögun og hjálpartæki

Rósa Hauksdóttir yfiriðjuþjálfi á Landakoti


Velferðarþjónusta

Ásta Guðmundsdóttir félagsráðgjafi á Landakoti


Að vera aðstandandi

Ása Guðmunsdóttir sálfræðingur á Landakoti

 

Stuðningsnet

Alzheimersamtökin eru aðili að Stuðningsnetinu sem byggir á faglegum ferlum við jafningjastuðning við sjúklinga og aðstandendur þeirra. 

- Hefur þú þörf fyrir að tala við aðra sem hafa verið í sömu aðstæðum?

- Veltir þú fyrir þér hvernig aðrir hafa tekist á við að geinast með sjúkdóm?

- Ertu hugsi yfir því hvaða áhrif sjúkdómurinn muni hafa á daglegt líf þitt eða fjölskyldu þinnar?

Faglegt og gæðastýrt ferli við jafningjastuðning

Skjólstæðingur leitar til Stuðningsnetsins gegnum www.studningsnet.is

Fagmenntaðir umsjónaraðilar velja skjólstæðingi stuðningsfulltrúa við hæfi að undangengnu viðtali og mati. 

Stuðningurinn getur farið fram í síma, tölvupósti eða augliti til auglitis, samkvæmt samkomulagi skjólstæðings og stuðningsfulltrúa. 

Umsjónaraðilar afla endurgjafar um hvernig til tókst hjá bæði skjólstæðingi og stuðningsfulltrúa og grípa til viðeigandi ráðstafana ef frávik koma upp. 

Aðildarfélög Stuðningsnetsins óska eftir sjálfboðaliðum sem vilja gerast stuðningsfulltrúar. Ef þú vilt gerast stuðningsaðili þá getur þú haft samband við alzheimer[hjá]alzheimer.is eða skráð þig á www.studningsnet.is 

Verðandi stuðningsfulltrúi fer gegnum ítarlegt viðtal til að ganga úr skugga um hvort viðkomandi hefur unnið úr eigin málum og er í stakk búinn til að aðstoða aðra. 

Stuðningsfulltrúar sitja 2x 4 klukkustunda námskeið í jafningjastuðningi sem byggir á gagnreyndri fyrirmynd frá Krafti, stuðningsfélagi fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra. 

Stuðningsfulltrúar hljóta viðeigandi símenntun með reglulegu millibili. 


Fræðsla til fyrirtækja og stofnana

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka

Hlauptu til góðs! Laugardaginn 22.ágúst 2020.
Hlaupurum í Reykjavíkurmarmaraþoni Íslandsbanka gefst kostur á að hlaupa til styrktar góðu málefni. Áheitasöfnunin fer fram á hlaupastyrkur.is og er hægt að velja á milli fjölmargra góðgerðafélaga. Alzheimersamtökin eru eitt af þeim og það væri frábært ef þú/þið veljið að hlaupa fyrir okkur.
Hvernig væri að stofna hlaupahóp í vinnunni og auka einnig vitund samstarfsfélaga um heilabilun.

Alzheimersamtökin bjóða hlaupahópum upp á vinnustaðafræðslu um heilabilun að kostnaðarlausu ef óskað er eftir því.

 


VEFTRÉ
W:
H: