Pistill 41 - Árið 2022

Óhætt er að segja að á árinu hafi oftar en áður birst jákvæðar fréttir af baráttunni við Alzheimer sjúkdóm. Kynnt var til sögunnar nýtt lyf við sjúkdómnum sem væntanlega kemst á markað þegar lyfjastofnanir hafa farið yfir öll gögn. Í lok ársins bárust þær fréttir að líkur væru á að nota mætti einfalda blóðprufu til að greina sjúkdóminn og hugsanlega í framtíðinni til skimunar. Þessar nýjungar verða til umfjöllunar í síðari pistlum. Þetta eru góðar fréttir fyrir fólk með væg einkenni en bestar fyrir næstu kynslóðir. Þær hjálpa þó því miður ekki þeim sem þegar eru komin með greinilega heilabilun. Nú verður sjónum beint að þeim og hvað gæti horft til betri vegar fyrir þau og hvað síðasta ár gaf þeim. Við skilgreinum heilabilun á þremur sviðum, vitræn skerðing, færniskerðing og geðrænar afleiðingar. Fyrri tvö sviðin fylgjast að mestu að, versnandi vitræn geta leiðir til versnandi færni. Þó er stundum hægt að bæta færni þótt vitræn geta batni ekki. Það er gert með tvennu móti; annars vegar með margvíslegri þjálfun sem viðhöfð er m.a. í dagþjálfunum og hins vegar með lyfjameðferð. Til er lyf sem við notum í dag sem bætir einbeitingu í heilabilun og auðveldar þar með að fást við ýmis verkefni daglegs lífs. Með því móti lagast færnin þótt minnisskerðing sé óbreytt.

Þriðja sviðið, geðrænar afleiðingar, fylgir hinum tveimur hins vegar ekki. Slík einkenni geta komið seint eða snemma og geta gengið yfir án meðferðar. Þau eru tímabundin en sá tími getur verið langur og erfiður ef einkennin eru mikil. Þau valda miklu álagi á sjúkling og aðstandendur og leiða því fremur til innlagna á spítala en vitræna skerðingin. Um er að ræða margvísleg einkenni; þunglyndi, kvíða, svefntruflanir, ranghugmyndir, órólegt atferli og svo mætti áfram telja. Oftast tekst að draga úr einkennum og í mörgum tilvikum gengur vel að ráða við þau. Í fyrstu er reynd meðferð án lyfja og getur það nægt. Oft þarf þó að nota lyf en fara verður varlega. Byrja með litla skammta og hækka þá hægt ef þörf er á. Sé þessi regla ekki virt koma fram aukaverkanir sem geta verið alvarlegar. Erfiðlega gengur að finna lyf sem hafa betri áhrif og/eða minni aukaverkanir. Engin ný lyf af þessu tagi hafa komist á markað á þessari öld. Þó hafa tvö lyf verið í þróun síðustu ár og eru bæði komin á markað í Bandaríkjunum. Annað þeirra sem kallast pimavanserin [1] var þróað til að meðhöndla geðrofseinkenni í Parkinson heilabilun en hefur einnig verið rannsakað í Alzheimer sjúkdómi. Annað lyf brexpiprazol [2], komst á markað vestra fyrir nokkrum árum. Það er ætlað til meðferðar við geðklofa en hefur nú verið rannsakað við andlegri vanlíðan í Alzheimer sjúkdómi. Greinarnar sem hér er vitnað til lýsa rannsóknum sem voru litlar en vænta má niðurstaðna úr stærri rannsóknum. Það má hins vegar gagnrýna að í þessum rannsóknum var notast við lyfleysu til samanburðar. Það er á mörkum þess að vera siðlegt því það eru þrátt fyrir allt til til lyf sem geta hjálpað og því ljóst að hluti þátttakenda sem var með andlega vanlíðan fékk ekki þá meðferð sem þó er í boði. Það liggur heldur ekki fyrir að hvaða leyti þessi lyf eru betri en þau sem fyrir eru ef ekki hefur verið gerður samanburður en vonandi stendur það til bóta.

Heimildir:

1. Shilpa Srinivasan o.fl. Pimavanserin for the treatment of psychosis in Alzheimer’s disease: A literature review. World J Psychiatry 2020. doi: 10.5498/wjp.v10.i7.162

2. T. Grossberg o.fl.  Efficacy and safety of Brexipiprazol for the treatment of agitation in Alzheimer´s dementia: Two 12-week randomized double-blind placebo-controlled trials. The American J of Geriatr. Psychiatry 2020. doi:/10.1016/j.jagp.2019.09.009

 

Vantar þig aðstoð?

Vantar þig aðstoð?