Það er afar mikilvægt allt frá byrjunarferli sjúkdómsins að nánasti aðstandandi fái vitneskju um hvert hann geti snúið sér og hvaða úrræði séu í boði. Heimilislæknirinn getur greint sjúkdóminn og vísað á sérfræðing í öldrunarsjúkdómum.
Sú þjónusta sem er í boði er mismunandi frá einu sveitarfélagi til annars. Starfsfólk á heilsugæslustöðvum veitir upplýsingar.
Hjá félagsþjónustunni er hægt að fá upplýsingar um hvaða aðstoð er í boði. Það gæti verið:
• félagsleg heimaþjónusta og heimahjúkrun
• dagdvöl/sérhæfða dagþjálfun fyrir fólk með heilabilun
• akstursþjónusta
• hvíldarinnlögn á sjúkrahúsi/ hjúkrunarheimili
• hjálpartæki
• þægilegra og hentugra húsnæði
• aðstoð við fjármál
Stuðningshópar
Flestum er eðlilegast að leita ráðlegginga og aðstoðar hjá fjölskyldu og nánum vinum. Reynslan hefur þó sýnt að mikill léttir getur verið að ræða vandamál sín og áhyggjur við aðila sem búa við svipaðar aðstæður. Í svokölluðum stuðningshópum sem leiddir eru af fagfólki gefst aðstandendum kostur á þessu, sem og fræðslu. Til að fá upplýsingar um stuðningshópa má senda fyrirspurn á alzheimer[hjá]alzheimer.is
Taktu einn dag í einu. Það getur hjálpað að upplýsa fólk um sjúkdóminn. Það léttir róðurinn að aðilar sem hinn veiki hefur umgengist, til dæmis nágrannarnir/ starfsfólk bókasafnsins/ hverfisbúðarinnar, viti hvernig ástatt er.
Hægt er að hringja í ráðgjafasíma 5201082 Alzheimersamtakanna sem er opinn alla virka daga nema fimmtudag frá kl. 9-12. Einnig er boðið upp á ráðgjafa- og stuðningsviðtöl fyrir einstaklinga og hjón/pör og fjölskyldufundi ef fleiri vilja koma saman sem hægt er að bóka á alzheimer[hjá]alzheimer.is. Sjá nánar um ráðgjöf hér.
Margt fólk með heilabilun gleymir hvernig á að bera sig að við hverdagslega hluti eins og að fara í banka eða á pósthús. Þeir eiga það til að ganga út úr verslunum án þess að borga og komið getur fyrir að hinn veiki rati ekki heim til sín.
Ef þetta endurtekur sig gæti verið nauðsynlegt að skilja eftir nafn, heimilisfang og símanúmer á næstu lögreglustöð. Það gæti verið góð hugmynd að hafa merkimiða innanklæða með nafni og heimilisfangi.
Aðstandendur fólks með heilabilun ættu að kanna hvaða aðstoð þeim stendur til boða, til dæmis frá heimilislækni, félagsráðgjafa eða sálfræðingi. Sumstaðar er boðið upp á stuðningshópa fyrir aðstandendur.
Á flestum bókasöfnum er hægt að fá bækur um heilabilunarsjúkdóma eins og Alzheimer og fleiri.
Einnig er hægt að kaupa bækur í netverslun Alzheimersamtakanna.