RÁÐGJAFASÍMINN
520 10 82
SENDA
MINNINGARKORT
GERAST
FÉLAGI
STYRKJA SAMTÖKIN
HEILAVINUR
Innkaupakerra
Eftir greiningu

Að fá greiningu

Sá sem greinist með heilabilun missir auðveldlega fótanna. Ferli og þróun heilabilunar er einstaklingsbundin, engin tvö tilfelli heilabilunar eru eins. En lífið með heilabilun er sameiginlegt verkefni þess sem greinist með sjúkdóminn og hans nánustu.

Á byrjunarstigi sjúkdómsins er alltaf erfitt að átta sig á hvaða þýðingu heilabilunargreiningin hefur. Það getur reynst erfitt að horfast í augu við sjúkdóminn og þær breytingar sem fylgja nýjum aðstæðum. Jafnvel þó fólk hafi verið undir það búið að hugsanlega væri um heilabilun að ræða, getur greiningin verið áfall.Heilabilun er áskorun

Heilabilunarsjúkdómar hafa djúpstæð áhrif á fjölskyldulífið. Hlutverk breytast og eðli samskipta verður öðruvísi. Þegar greiningin er komin fram, þarf því að komast að niðurstöðu um hvernig haga skuli lífinu með heilabilun.

Þegar sjúkdómurinn ágerist fer ástand hins veika versnandi. Það þýðir að fjölskyldan þarf stöðugt að aðlaga sig og finna nýjar lausnir á þeim vandamálum sem fylgja sjúkdómnum. Það krefst orku og þolinmæði, sem oft getur reynst erfitt þegar vandamálin hlaðast upp. 

Fólk með heilabilun og aðstandendur þeirra þurfa því á ráðgjöf, leiðbeiningum og stuðningi að halda.

Eftirfarandi eru þrjú almenn ráð sem geta auðveldað daglegt líf með heilabilun.

Aflaðu upplýsinga

Orsakir heilabilunarsjúkdóma eru ekki þekktar. Það er heldur ekki til nein læknismeðferð við þessum sjúkdómum. Við vitum þó margt um áhrif heilabilunarsjúkdóma á daglegt líf þeirra sem hlut eiga að máli. Þessi vitneskja er gulls ígildi þegar skipuleggja á líf með heilabilun.

Því meiri þekkingu um heilabilunarsjúkdóma sem sá sem er veikur, aðstandendur hans og umönnunaraðilar búa yfir, því meiri möguleikar eru á að draga úr neikvæðum áhrifum sjúkdómsins.

Hér á síðunni má finna hafsjó upplýsinga um heilabilunarsjúkdóma og hvernig má lifa með þeim. Hér eru hlekkir á erlend Alzheimersamtök og hér má lesa fræðigreinar um efnið. Til að fá nánari upplýsingar má alltaf hringja í ráðgjafasímann 520 1082 eða senda tölvupóst á alzheimer[hjá]alzheimer.is


Að segja frá

Sannleikurinn er sagna bestur.

Það er ekki hægt að sjá á fólki að það þjáist af heilabilunarsjúkdómi. Vinir, nágrannar og starfsfélagar vita því sjaldan að fjölskyldumeðlimur sé haldinn sjúkdómi, nema þú segir þeim það sjálfur.

Að tala opið um sjúkdóminn auðveldar fjölskyldumeðlimum og vinum að bjóða fram aðstoð sína. Hreinskilni gerir það einnig auðveldara að þiggja ráðleggingar og aðstoð sem umhverfið býður upp á.

Hið sama gildir um þann sem veikist. Hann á rétt á að vita af veikindum sínum.Taktu þátt

Margar fjölskyldur þurfa að takast á við heilabilunarsjúkdóm. Ekki er vitað hversu margir á Íslandi lifa með heilabilun í daglegu lífi, annað hvort vegna þess að þeir eru sjálfir með heilabilun eða vegna þess að einhver í fjölskyldunni er með heilabilun. Að eiga samskipti við aðra sem eru í sömu aðstæðum og maður sjálfur getur verið mikil styrkur til að takast á við daglegt líf með heilabilun.

Undir fréttir og viðburðir getur þú fylgst með dagskrá Alzheimersamtakanna. Allir áhugasamir eru hvattir til að taka þátt í starfseminni.

VEFTRÉ
W:
H: