Dagskrá júlí og ágúst 2024
1. júlí 2024
Við hjá Alzheimersamtökunum þökkum kærlega fyrir góða þátttöku í bekkjagöngunni og heimsókn til okkar í Lífsgæðasetur St. Jó. í Hafnarfirði, þann 8. júní síðastliðinn.
Vonir standa til að bekkjagangan sé komin til að vera og að þetta verði árlegur viðburður héðan í frá. Fjólubláu bekkjunum fjölgar jafnt og þétt í hinum ýmsu bæjarfélögum og vonandi verður þessi vel heppnaða ganga til þess að göngurnar verði haldnar víðar en í Hafnarfirði á komandi ári.
Með viðburði eins og bekkjagöngunni og notkun fjólubláa litsins vilja Alzheimersamtökin vekja athygli á og auka umræðu um heilabilun í samfélaginu. Auk þess að vekja athygli á starfi samtakanna sem hagsmunasamtök og þeirri þjónustu sem samtökin veita einstaklingum með heilabilun og aðstandenda þeirra.
Vitundarvakningar er þörf og er það í þágu allra, að þekking og skilningur aukist í garð þeirra sem greinast með heilabilun og þeirra sem standa þeim næst. Með aukinni þekkingu og skilningi verður auðveldara fyrir einstaklinga með heilabilun að viðhalda virkni og minnka hættu á að draga sig í hlé og einangrast. En einangrun er oft á tíðum fylgifiskur þess að upplifa þann vanmátt sem stafar af breyttri getu til ýmissa verka og/eða samskipta. Það verður líka seint of oft sagt að það að viðhalda virkni af einhverju tagi er öllum gríðarlega mikilvægt. Ekki síst því fólki sem glímir við heilabilun af einhverju tagi, því víst er að það að viðhalda virkni getur hægt á framþróun slíks sjúkdóms og minnkað einkenni.
Stuðningshópar, í umsjón Brynhildar Jónsdóttur sálfræðings verða haldnir í Lífsgæðasetrinu í Hafnarfirði, í júlí og ágúst sem hér segir:
- Fyrir aðstandendur fólks með heilabilun, miðvikudaginn 3. júlí kl. 13:30-15:00.
- Fyrir aðstandendur fólks með heilabilun, miðvikudaginn 7. ágúst kl. 13:30-15:00.
- Fyrir aðstandendur með maka með heilabilun á hjúkrunarheimili, miðvikudaginn 14. ágúst kl. 13:30-15:00.
- Fyrir yngri afkomendur fólks með heilabilun, miðvikudaginn 21. ágúst kl. 16:30-18:00.
- Fyrir aðstandendur fólks með Lewy-body sjúkdóm, miðvikudaginn. 28. ágúst kl. 13:30-15:00.
- Fræðsluerindi verða ekki haldin í sumar en upptökur frá fyrri erindum má nálgast hér.
Næsta dagskrá Alzheimersamtakanna mun verða birt í september en við minnum á tvo mikilvæga viðburði sem framundan eru - en þeir munu verða auglýstir betur á heimasíðu okkar, sem og á samfélagsmiðlum. Um er að ræða:
- Reykjavíkurmaraþon, 24. ágúst.
- Viðburðurinn er gríðarlega mikilvægur í fjáröflun Alzheimersamtakanna, sem alfarið eru rekin á styrkjum og frjálsum framlögum.
- Hægt er að skrá sig í maraþonið hér og hlaupa til styrktar Alzheimersamtakanna með því að skrá sig hér, alveg fram að Reykjavíkurmaraþoninu sjálfu.
- Alþjóðlegi Alzheimerdagurinn, 21. september.
- Alzheimersamtökin munu vera með ráðstefnu og fræðslu í tilefni þess dags á Hótel Reykjavík, í salnum Háteig, frá kl. 12:30-15:30.
- Hvetjum ykkur til þess að taka daginn frá og fylgjast með fréttum á heimasíðu okkar, en upplýsingar um viðburðinn má nálgast hér.