Loksins góðar fréttir af lyfjamálum

22. nóvember 2022

Í morgun birtist frétt á vefmiðli The Guardian um að nú megi loksins vona að lyf sem haft getur veruleg áhrif á framgang Alzheimersjúkdómsins, sé á leiðinni á markað.

Um er að ræða lyfið Lecanemab og þótt sérfræðingar telji að lyfið muni ekki stöðva vitsmunalega hnignun þá muni það hægja það verulega á framgangi, að líkja má við byltingu.

Í lok nóvember verður haldin árleg, stór ráðstefna í San Francisco þar sem niðurstöður rannsókna verða birtar og yfirfarnar og er talað um að í ár verði talað um hana sem tímamótaviðburð.

Langt er síðan vísindamenn hafa verið jafn bjartsýnir og nú eftir áratuga vonbrigði sí og æ. Í Bretlandi eru Alzheimer og aðrir heilabilunarsjúkdómar þeir sjúkdómar sem flestir látast af. Þeir eru sjöundu í röðinni á heimsvísu svo það er til mikils að vinna.

Heimurinn bíður nú í ofvæni eftir fréttum í kjölfar ráðstefnunnar í San Francisco en Jón Snædal öldrunarlæknir mun sækja hana og færa okkur í kjölfarið ítarlegri fréttir.

Vantar þig aðstoð?

Vantar þig aðstoð?