Mikilvægi áheitasöfnunar
17. maí 2023
Nú eru tæplega 100 dagar í Reykjavíkurmarþonið og því ekki seinna vænna að hefja æfingar.
Alzheimersamtökin eru rekin af styrkjum úr ýmsum áttum og er Reykjavíkurmaraþonið ein stærsta einstaka tekjulind samtakanna. Við höfum fengið ómetanlegan styrk í gegnum árin í gegnum áheit á hlaupara sem ákveðið hafa að hlaupa fyrir samtökin, fyrir það erum við afar þakklát.
Við hvetjum ykkur sem ákveðið að hlaupa fyrir Alzheimersamtökin að skrá ykkur á hlaupastyrkur.is, setja mynd af ykkur og smá texta um hvers vegna þið hlaupið fyrir samtökin því það hjálpar okkur að vekja athygli á málstaðnum.
Alzheimersamtökin hafa það að markmiði að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna og efla samvinnu og samheldni aðstandenda. Einnig að auka skilning stjórnvalda, heilbrigðisstétta og almennings á þeim vandamálum sem heilabilaðir og aðstandendur þeirra eiga við að etja. Þessum markmiðum ná samtökin með því að halda úti öflugu ráðgjafa- og fræðslustarfi s.s. með reglulegum fræðslufundum sem streymt er á netinu, fræðslu til stofnana og fyrirtækja og með því að halda úti öflugri heimasíðu og á samfélagsmiðlum.
Við hvetjum einstaklinga og hlaupahópa til að hlaupa til styrktar samtökunum. Ef þinn hópur vill fræðast meira um heilabilun þá bjóðum við upp á fræðslu ykkur að kostnaðarlausu, hafið samband við okkur á alzheimer@alzheimer.is.
Opnum umræðuna um heilabilun í okkar nærumhverfi og verum virkir þátttakendur í að minnka félagslega einangrun fólks með heilabilun og auka þannig lífsgæði þeirra. Þau sem hlaupa í Reykjavíkurmaraþoni fyrir Alzheimersamtökin hlaupa í leiðinni fyrir alla okkar skjólstæðinga.
Öllum hlaupurum sem hlaupa fyrir samtökin verður boðið í upphitun fyrir Reykjavíkurmaraþonið. Þar stefnum við á að bjóða upp á léttar veitingar og fyrirlestur frá reyndum hlaupara auk þess að afhenda boli frá samtökunum og annan glaðning.
Munum leiðina.... takk fyrir stuðninginn og gangi ykkur vel!
Guðlaugur Eyjólfsson, framkvæmdastjóri Alzheimersamtakanna