Dagskrá október mánaðar
1. október 2023
September er nú senn á enda og var heilmikið um að vera hjá Alzheimersamtökunum í þessum mánuði.
Ráðstefna Alzheimersamtakanna “Er mamma bara með heilabilun þrjá daga í viku?” var haldin, á Alþjóðlega Alzheimerdeginum þann 21. september, í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Ráðstefnan var vel heppnuð í alla staði og erum við mjög ánægð með þátttöku þeirra sem mættu á staðinn, sem og áhorf þess fjölda sem fylgdist með í beinu streymi. Hægt er að nálgast upptöku frá ráðstefnunni á heimasíðu okkar, smella má beint á hlekkinn hér.
Fræðsla fyrir nýgreinda var haldin í húsnæði samtakanna þann 26. september og var húsfylli. Rafræn fræðsla fyrir nýgreinda er aðgengileg á heimasíðu okkar á eftirfarandi slóð: Ert þú með heilabilun? on Vimeo Fræðsla fyrir nýgreinda er haldin 2-3 sinnum á ári.
Þann 10. október eigum við von á góðum gestum, en þá verður fyrirlestur frá #DÆTUR sem eiga það sameiginlegt að vera mæður barna á leik- og grunnskólaaldri, virkir þátttakendur í atvinnulífinu og dætur foreldris með heilabilun. Þær Sigríður Pétursdóttir og Árný Ingvarsdóttir leiða hópinn og munu segja frá reynslu þeirra með samverunni og samstöðunni. Erindið verður haldið hjá okkur í Hafnarfirðinum, en einnig verður hægt að fylgjast með í beinu streymi. Frekari upplýsingar koma fram á heimasíðu okkar: alzheimer.is
Stuðningshópar verða á sínum stað í Hafnarfirði í október (sjá má dagsetningar á heimasíðu og í dagskránni sem fylgir sem viðhengi), að undanskildum “stuðningshópi fyrir yngri afkomendur fólks með heilabilun”, næsti þannig hópur verður haldinn þann 15. nóvember.
Starfsfólk Alzheimersamtakanna sækir sér fræðslu varðandi heilabilunarsjúkdóma víða og mun hluti af starfsmannahópnum taka þátt í 33.ráðstefnu Alzheimer Europe sem haldin verður um miðjan október í Helsinki, Finnlandi. Spennandi ráðstefna með yfirskriftinni “New opportunities in dementia care, policy and research”. Allar nánari upplýsingar hér: 2023 Helsinki | Alzheimer Europe (alzheimer-europe.org)
Vonandi verður október ykkur ánægjulegur og hvetjum við öll sem geta, til þess að fara í gönguferðir og njóta fegurðar haustlitanna allt um kring.
Góðar stundir.