Húsfyllir í Reykjanesbæ
31. október 2025
Félag eldri borgara á Suðurnesjum (FEBS) bauð okkur í Alzheimersamtökunum að koma til sín og vera með fræðslu um starf samtakanna og fjalla um heilabilun, góð samskipti og stuðning við aðstandendur.
Fræðsluerindið var haldið í salnum á Nesvöllum og var húsfyllir eða um 120 manns. Stór hluti gesta voru félagar í FEBS en einnig aðstandendur, starfsfólk á Nesvöllum og HSS ásamt öðrum áhugasömum.
Auka þekkingu og skilning
Thelma Jónsdóttir, fræðslustjóri Alzheimersamtakanna og Ásta Kristín Guðmundsdóttir, ráðgjafi samtakanna sáu um fræðsluna. Tilgangurinn var að auka þekkingu og dýpka skilning á þeim áskorunum sem einstaklingar með heilabilun og aðstandendur þeirra standa frammi fyrir. Umræða um heilabilun er einnig mikilvægur þáttur til að minnka fordóma í samfélaginu.
Alzheimertenglar óskast
Eftir erindið komu nokkrar spurningar úr sal og síðan bauð FEBS fólki upp á kaffi og með því. Þá sagði Aðalheiður Valgeirsdóttir, Alzheimertengill á Suðurnesjum í stuttu máli frá starfinu á svæðinu sem var mjög öflugt en lagðist því miður af í Covid. Hún er því að leita að einhverjum til að taka við keflinu en Alzheimertenglar skipuleggja sem dæmi um Alzheimerkaffi, veita fræðslu og tengja fólk í sínu samfélagi saman. Áhugasamir geta haft samband við Aðalheiði eða Thelmu hjá Alzheimersamtökunum – thelma@alzheimer.is
Suðurnesin
Þetta var annað fræðsluerindið sem þær stöllur héldu á Suðurnesjum á undanförnum dögum en í síðustu viku voru þær í Suðurnesjabæ og hittu starfsfólk í dagdvöl eldri borgara og heimaþjónustu.
Takk fyrir okkur
Við þökkum FEBS fyrir að bjóða okkur og einnig kærar þakkir til allra sem hlýddu á okkur. Við fundum fyrir hlýhug og þakklæti sem styrkir okkur í þessu mikilvæga starfi.
Ef áhugi er á að fá fræðsluerindi frá Alzheimersamtökunum, er velkomið að hafa samband á netfangið alzheimer@alzheimer.is