Dagskrá maí 2024

1. maí 2024

Nú er síðasti dagur aprílmánaðar og maí handan við hornið, komin tími á að birta dagskrá maí mánaðar og fagna um leið sumri - vonandi eigum við góða sumarmánuði í vændum.

Í maí verður haldið Alzheimerkaffi í Hæðargarðinum í Reykjavík og einnig á Akureyri. Stuðningshópar verða haldnir í Hafnarfirði og á Akureyri og eru þessir viðburðir auglýstir sérstaklega.

Þann 14. maí, kl. 16:30-17:00, mun Harpa Björgvinsdóttir iðjuþjálfi og verkefnastjóri Seiglunnar vera með fræðsluerindi hjá okkur í Lífsgæðasetri St. Jó. á 3. hæð í Hafnarfirði.

Titill erindis Hörpu er: “Seiglan - Reynslan í starfi síðustu tveggja ára”.  

Seiglan, þjónustumiðstöð Alzheimersamtakanna, er fyrir fólk með heilabilunarsjúkdóm sem er á stigi vægrar vitrænnar skerðingar og aðstandendur þeirra. Seiglan starfar eftir hugmyndafræði iðjuþjálfunar og byggir á þeirri sýn að iðja sé öllu fólki nauðsynleg og frá örófi alda hafi líf manneskjunnar einkennst af þörf til að stunda iðju og taka þátt í samfélaginu. Rannsóknir hafa sýnt að ef fólk kemst í þær aðstæður að geta ekki sinnt þeirri iðju sem er því mikilvæg, þá hefur það neikvæð áhrif á heilsu þess og líðan. Þjónusta Seiglunnar er einstaklingsmiðuð og valdeflandi og verður til á forsendum þeirra sem sækja þjónustuna.

Fræðslan verður einnig í beinu streymi og upptaka aðgengileg eftir á.

Stuðningshópar í Lífsgæðasetrinu í Hafnarfirði, í umsjón Brynhildar Jónsdóttur sálfræðings, verða sem hér segir:

  • Fyrir aðstandendur með maka með heilabilun á hjúkrunarheimili, miðvikudaginn 8. maí kl. 13:30-15:00.
  • Fyrir aðstandendur fólks með heilabilun, miðvikudaginn 15. maí kl. 13:30-15:00.
  • Fyrir aðstandendur fólks með Lewy-body sjúkdóm, miðvikudaginn. 29. maí kl. 13:30-15:00.

Þriðjudaginn 14. maí mun einnig verða haldinn stuðningshópur á Akureyri og er hann auglýstur sérstaklega á heimasíðu okkar og í nærumhverfi.

Með hverjum deginum sem líður hækkar sól á lofti og hvetjum við ykkur til þess að nýta góða daga til útiveru, ganga, tylla ykkur á verönd eða í skjóli við húsvegg, mögulega með kaffibolla í hönd, njóta samveru og skapa minningar. Lesa ljóð eða hlusta á hljóðbók, horfa saman á sólsetur, spila eða spjalla, eða sitja í þögn. Staldra við og njóta hverrar stundar því staður og stund er tíminn sem við eigum.

Munum að oft þarf ekki að leita langt yfir skammt, fegurð má sjá í litlum hlutum, blóm sem blómstra, flugur sem suða, kliður frá börnum úti í leik, allt getur þetta gefið okkur jákvæða andlega næringu, veitt gleði og góða líðan. Stuðlað að jákvæðum tilfinningum og vellíðan, allt eftir því með hvaða augum við kjósum að líta á það sem við sjáum, finnum, heyrum og upplifum.

Gleðilegt sumar gott fólk og farið vel með ykkur.

Vantar þig aðstoð?

Vantar þig aðstoð?