Bjartsýni eykst vegna nýja lyfsins

1. desember 2022

Þótt miklar framfarir hafi orðið að ýmsu leyti í glímunni við Alzheimer sjúkdóm hefur áhrifarík meðferð við honum látið á sér standa. Nú virðist vera að rofa til en það er fyrirsjáanlegt að fyrsta nýja áhrifaríka lyfið á þessari öld mun komast á markað á allra næstu misserum, líftæknilyfið lecanemab. Á ráðstefnunni CTAD í San Fransisco hittast menn núna í fyrsta sinn í þrjú ár en síðustu skiptin hafa verið fjarfundir í faraldri. Fundarsalurinn er þéttsetinn enda er uppselt á ráðstefnuna. Það er samt ekki sama spenna í loftinu og var fyrir þremur árum þegar fyrsta lyfið við Alzheimer sjúkdómi var kynnt sem menn vonuðust eftir að kæmi á markað. Þá var mikil óvissa um hvað yrði um það en núna voru menn rólegir. Búið var að kynna aðal niðustöðurnar fyrir tveimur mánuðum og sama dag og ráðstefnan byrjaði hafði vísindagrein birst í New England Journal of Medicine sem lýsti rannsókninni í smáatriðum.  Öll heimsbyggðin var því búin að fá niðurstöðurnar sem sýna að í þetta sinn yrði leiðin greið. Lokarannsóknin sem allt byggir á var stór og vel gerð, einföld í sniðum og með skýrum markmiðum sem öll náðust.

 

Aðdragandinn er langur því liðin eru 30 ár frá þeirri erfðauppgötvun sem varð forsenda þróunar á þessu lyfi. Það var í Svíþjóð árið 1992 að fannst genabreyting sem fljótlega var kölluð “the arctic mutation” eða “heimskautagenið”. Þetta gen eins og svo mörg önnur sem fundist hafa í þessum sjúkdómi veldur því að meira myndast af próteininu amyloid en heilinn ræður við og það fellur út sem örsmáar skellur. Sænski læknirinn Lars Lönnfelt sem var í því teymi sem fann genið setti í gang lyfjaþróun á grundvelli nýrrar þekkingar og þegar ljóst var að hann væri á réttri leið tóku stórfyrirtækin yfir því þau ein ráða yfir því fjármagni sem þarf til að gera stórar rannsóknir. Það urðu þó margar hindranir á leiðinni. Alvarlegust var sú að svo virtist sem lyf af þessu tagi mynduðu heilabólgu hjá hluta þátttakenda. Rannsóknir með öll slík lyf á mönnum voru þá stöðvaðar í nokkur ár og svo var farið varlega af stað, full varlega eins og síðar kom í ljós. Skammtarnir reyndust of litlir til að hafa tilætluð áhrif og það eru ekki mörg ár síðan ljóst var að “heilabólgan” sem getur myndast er venjulega skaðlaus og þá urðu menn áræðnari með hærri skammta. Of lágir skammtar virðist vera ein meginástæðan fyrir því að fyrri lyf af svipaðri gerð sýndu ekki árangur.

En hver eru áhrifin og hvernig er meðferð háttað? Þótt mörgum spurningum sé enn ósvarað er ljóst að lyfið seinkar framgangi sjúkdómsins og er a.m.k.  tvisvar til þrisvar sinnum öflugra en lyfin sem fyrir eru. Það sem meira er, lyfið breytir sjúkdómsganginum en seinkar honum ekki aðeins eins og fyrri lyf. Þannig eykst með tímanum munurinn á þeim sem fá lyfið og þeim sem fá lyfleysu, þ.e. á þvi eina og hálfa ári sem rannsóknin stóð yfir.  

Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar nánar er ljóst að þetta er stórt skref en ekki bylting því lyfið stöðvar ekki sjúkdóminn þótt það hægi umtalsvert á honum. Það þarf að velja þá vel sem fá lyfið og er ekki búið að setja það niður í smáatriðum hvernig það verður gert. Meðferðin er ekki einföld því lyfið er gefið í æð á tveggja vikna fresti. Hugsanlega má líða lengra á milli en það er eitt af því sem er óljóst. Líklegt er að það þurfi þó ekki að gera til langframa en hversu lengi er heldur ekki vitað. Þetta þýðir að sjúklingur þarf að koma á minnismóttöku í hvert sinn nema verði komið meðferð í heimahúsi. Fyrstu skammtar þurfa þó alltaf að gefast á spítala því sumir fá ofnæmisviðbrögð við fyrstu skömmtum. Fylgja þarf hverjum og einum vel eftir með segulómunum því sumir geta fengið umrædda heilabólgu sem reyndar er bjúgur en ekki bólga. Flestir finna þó ekki fyrir því en einstaka gerir það þó.  Þessar breytingar ganga yfir og ef viðkomandi finnur ekki fyrir þeim virðist ekki þurfa að stöðva meðferðina. Annað áhyggjuefni eru háræðablæðingar sem geta komið hjá einum og einum en eru það litlar að engin einkenni fylgja. Menn hafa þó áhyggjur af því hvað gerist ef meðferðinni er haldið lengi áfram hjá þessum einstaklingum en það er enn eitt sem er óljóst.

Rannsóknir halda áfram, m.a. með þátttöku þeirra sem tóku þátt í stóru rannsókninni en nú fá allir lyfið en enginn lyfleysu (opin framhaldsrannsókn). Sótt hefur verið um skráningu í Bandaríkjunum og er líklegt að lyfið komist á markað þar á næsta ári. Það verður einnig lögð áhersla á að lyfið komist á markað í Evrópu og í kjölfarið á Íslandi. Rétt er að hefja undirbúning meðferðarinnar sem væntanlega yrði veitt á minnismóttökunni eða í tengslum við hana.

Að endingu. Menn virðast sammála um að þetta sé aðeins byrjunin og á næstu árum komi fram lyf sem hafa aðra verkun og eru einfaldari í notkun. Bjartsýni hefur því merkjanlega aukist.

San Fransisco í nóvember 2022

Jón Snædal, öldrunarlæknir

Vantar þig aðstoð?

Vantar þig aðstoð?