RÁÐGJAFASÍMINN
520 10 82
SENDA
MINNINGARKORT
GERAST
FÉLAGI
STYRKJA SAMTÖKIN
HEILAVINUR
Innkaupakerra
Fréttir & Viðburðir

Geta augnmælingar nýst við greiningu á Alzheimer?

24/11/2021

„Alzheimer-sjúkdómur og aðrir skyldir sjúkdómar eru bæði algengir og alvarlegir. Með hækkandi meðalaldri í heiminum eykst tíðni þeirra sem greinast með heilabilun líkt og Alzheimer. Það er því mjög mikilvægt að finna leiðir til að greina sjúkdóminn snemma,“ segir Sveinn Hákon Harðarson, dósent við Lífeðlisfræðistofnun Læknadeildar, sem vinnur að afar áhugaverðu rannsóknarverkefni á þessum algenga sjúkdómi ásamt samstarfsfólki.

Alzheimer er sá taugahrörnunarsjúkdómur sem oftast veldur heilabilun. Engin lækning er til við sjúkdómnum enn sem komið er en áætlað er að heilabilun hrjái allt að 50 milljónir manna í heiminum.

Ekki er einfalt að greina sjúkdóminn enda geta einkenni hans verið lúmsk og margslungin en á því vilja Sveinn og samstarfsfélagar ráða bót. Í rannsóknarverkefninu nýta þau tækni sem þróuð hefur verið innan Háskólans til að kanna hvort hægt sé að nota mælingar á breytingum í sjónhimnu til að hjálpa við greiningu og mat á sjúkdómnum.

„Sjónhimna augans er náskyld heilanum og vitað er að ákveðnar breytingar verða í sjónhimnunni í Alzheimer-sjúkdómi. Kosturinn við sjónhimnuna umfram sjálfan heilann er að hægt er að skoða sjónhimnuna á frekar einfaldan hátt með sýnilegu ljósi í gegnum ljósop augans,“ útskýrir Ólöf Birna Ólafsdóttir, lektor sem einnig starfar að verkefninu á Lífeðlisfræðistofun.

Auk þeirra kom fleiri fulltrúar frá stofnuninni og Landspítala að verkefninu, þau Anna Bryndís Einarsdóttir, Róbert Arnar Karlsson og Einar Stefánsson, prófessor í augnsjúkdómafræði. Það er einmitt tækni sem Einar þróaði ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, og fleirum og varð grundvöllur sprotafyrirtækisins Oxymap, sem gegnir hér lykilhlutverki. Um er að ræða tæki sem nýtist til súrefnismælinga í auganu. 

„Í verkefninu eru gerðar mælingar á súrefnismettun í æðum sjónhimnu fólks með væga vitræna skerðingu eða Alzheimer-sjúkdóm og þær mælingar bornar saman við niðurstöður úr heilbrigðum samanburðarhópi. Mælingarnar byggja á sérstakri myndatöku af sjónhimnunni sem gerir kleift að nota lit blóðs í sjónhimnuæðum til að meta súrefnismettun. Að auki eru gerðar hefðbundnar mælingar á þykkt sjónhimnu með svokölluðu OCT-sneiðmyndatæki,“ segir Sveinn.

„Sjónhimna augans er náskyld heilanum og vitað er að ákveðnar breytingar verða í sjónhimnunni í Alzheimer-sjúkdómi. Kosturinn við sjónhimnuna umfram sjálfan heilann er að hægt er að skoða sjónhimnuna á frekar einfaldan hátt með sýnilegu ljósi í gegnum ljósop augans,“ segir Ólöf Birna.


Betri greining og mat gæti stutt meðhöndlun og þróun meðferðar
Ólöf bætir við að tilgátan sé sú að hrörnun í heila komi að einhverju leyti fram í hrörnun í sjónhimnunni og að hægt sé að nota breytta súrefnisnotkun og/eða breytta þykkt sjónhimnu sem óbeinan mælikvarða á framgang heilasjúkdómsins. „Betri greining og mat á sjúkdómnum gæti hjálpað til við meðhöndlun hans og þróun meðferðar,“ segir hún enn fremur.

Verkefnið sem hópurinn vinnur að núna er framhald á fyrri rannsóknum. Þær leiddu í ljós breytingar á súrefnismettun í sjónhimnu fólks með væga vitræna skerðingu og í sjónhimnu fólks með Alzheimer-sjúkdóm. „Framhaldsrannsóknin er að hefjast og vonast er til að hún gefi nákvæmari mynd af breytingum í sjónhimnunni og svari því hvort augnmælingarnar nýtist til að meta sjúkdóminn,“ segir Sveinn.

Verkefnið er angi af stærra rannsóknarverkefni um væga vitræna skerðingu og Alzheimer-sjúkdóm, sem unnið er undir stjórn Jóns Snædal, öldrunarlæknis á Landakoti. Augnmælingarnar eru einn hluti heildarverkefnisins en aðrir rannsakendur í hópnum vinna m.a. taugasálfræðilegt mat á þátttalendum, skoða lífvísa í heila- og mænuvökva, segulómun af heila og heilarafrit.

Frétt af vefsíðu Háskóla Ísland

Námskeið í Lífsneistanum

23/11/2021

Vilt þú verða leiðbeinandi í Lífsneistanum "Spark of life" sem er meðferðaríhlutun fyrir fólk með heilabilun? Námskeiðið fer fram 2.-5. maí 2022 á Zoom og haldið af Dementia Care International í Ástralíu. Nánari upplýsingar um námskeiðið er í hlekknum hér.  Síðasti skráningardagur er 30.mars 2022.

28.pistill Jóns Snædals

19/11/2021

Ráðstefna sem kallast CTAD (Clinical Trials in Alzheimer´s Disease) var haldin í Boston 9.-12. nóvember. Hún er haldin er árlega og fjallar um það nýjasta í þróun lyfja og rannsóknaraðferða í Alzheimer sjúkdómi. Í fyrirlestrunum kom fram að það ríkir greinilega aukin bjartsýni hjá vísindamönnum um að það takist að finna betri meðferð við Alzheimer sjúkdómi en nú er í boði.

Á ráðstefnunni var sem vænta mátti mikið rætt um lyfið sem kom á markað í Bandaríkjunum í byrjun sumars en dræm sala þess hefur þó væntanlega valdið vonbrigðum hjá framleiðendum þess. Skráning lyfsins fékk mikla gagnrýni og lyfjanefndir margra heilbrigðisstofnana þarlendis hafa ekki mælt með notkun þess. Þar með fæst ekki niðurgreiðsla frá tryggingafélögum. Lyfið er mjög dýrt og það er auðvitað hamlandi. Lyfið er enn ekki á skrá í Evrópu. Á hinn bóginn er það sennilega rétt mat hjá Bandarísku lyfjastofnuninni FDA að skráningin hafi orðið hvatning til dáða.

Þess er vænst að tvö lyf til viðbótar fái skráningu á sömu forsendum og hið fyrsta og líkur aukast því á að eitthvert þeirra hafi raunveruleg áhrif til að bæta vitræna getu og líðan fólks. Þau virka öll á amyloid útfellingar í heila en á nokkuð misjafnan hátt. Margar aðrar tegundir lyfja eru í þróun þó ekki sé enn komið á það stig að sótt hafi verið um skráningu þeirra.

Einnig var fjallað um meðferðir sem eiga að bæta líðan Alzheimer sjúklinga með mikla heilabilun. Það er m.a. athyglisvert að fylgjast með þróun lyfja sem hafa áhrif á svokölluð cannaboid viðtæki í heila en slík efni er m.a. að finna í marjuana og hassi. Kynntar voru rannsóknir á þessum lyfjum sem lofa góðu, ekki síst fyrir það hversu vel þau þolast og aukaverkanir eru litlar. Rétt er að taka fram að ráðstefnan fjallaði nánast eingöngu um lyf en ýmsar aðrar aðferðir eru til sem hjálpa svo sem tónlist, endurminningarmeðferð og ekki síst fagleg umönnun. Rannsóknaraðferðir sem greina Alzheimer sjúkdóm mjög snemma eru í þróun og er t.d. líklegt að blóðrannsóknir geti í nánustu framtíð gefið svipaða niðurstöðu og jáeindaskönnun og mælingar úr mænuvökva en þær eru óneitanlega mun einfaldari í framkvæmd. Þetta hefur verið það lengi í umræðunni að það hlýtur að fara að styttast í að slíkar aðferðir verði aðgengilegar við venjulega uppvinnslu á vitrænni skerðingu. Minnismóttakan á Landakoti fylgist grannt með og mun taka slíka rannsókn upp þegar hún verður í boði. Það er svo annað mál hvort verði farið út í skimanir til að finna þá sem eru komnir með merki sjúkdómsins í heila en hafa engin einkenni en það verður a.m.k. ekki fyrr en áhrifarík meðferð verður í boði.

Hægt er að lesa alla pistla Jóns hér.

 

 

Stuðningshópur fyrir aðstandendur fellur niður

15/11/2021

Stuðningshópur fyrir aðstandendur, þriðjudaginn 16.nóvember kl. 13:30, fellur niður vegna fjölda covidsmita í samfélaginu. Við minnum á ráðgjafasímann okkar s. 5201082 sem er opin alla virka daga frá kl. 9-16 nema föstudaga. Einnig er hægt að fá tíma hjá ráðgjafa, bæði á staðnum eða í fjarbúnaði. 

02
des

Alzheimerkaffi í Reykjavík - FELLUR NIÐUR

02/12/2021
kl. 17:00-18:15

Staðsetning

Félagsmiðstöðin Hæðargarði 31

Tími

Kl. 17:00-18:15

Stutt lýsing

Alzheimerkaffi fellur niður í desember vegna covidsmita í samfélaginu.

Við tökum upp þráðinn við fyrstu hentugleika á nýju ári.

Alzheimerkaffi er fyrir fólk með Alzheimer og aðra heilabilunarsjúkdóma og aðstandendur þeirra.


Dagskrá: Spjall - Fræðsla - Kaffi - Söngur með undirleik

07
des

Stuðningshópur fyrir aðstandendur

07/12/2021
kl. 13:30 - 15:00

Staðsetning

Lífsgæðasetur St. Jó, Suðurgötu 41, 220 Hafnarfirði

Tími

Kl. 13:30 - 15:00

Stutt lýsing

Stuðningshópar fyrir aðstandendur fólks með heilabilun.
Aðstandendur eru fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir en á það sameiginlegt að eiga ástvin heima, í dagþjálfun eða á hjúkrunarheimili.

Markmiðið með samverunni er að hittast, spjalla og deila reynslunni. Stuðningur annarra í svipuðum aðstæðum getur bætt líðan og dregið úr streitu.

Allir aðstandendur fólks með heilabilun eru hvattir til að koma og spjalla. Ekki þarf að skrá sig og aðgangur er ókeypis.

10
des

Basar í Fríðuhúsi

10/12/2021
kl. 13:00 - 16:00

Staðsetning

Austurbrún 31, Reykjavík

Tími

Kl. 13:00 - 16:00

Stutt lýsing

Basarinn er optinn frá 18. nóvember til 10. desember.

VEFTRÉ
W:
H: