RÁÐGJAFASÍMINN
533 10 88
SENDA
MINNINGARKORT
GERAST
FÉLAGI
Innkaupakerra
Fréttir & Viðburðir

Móttaka fyrir hlaupara

15/08/2018

Við minnum á móttöku fyrir hlaupara í dag í sal Alzheimersamtakanna í Hátúni 10 í Reykjavík. 

 

Allir eru velkomnir en sérstaklega þeir sem ætla að hlaupa undir merkjum samtakanna í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka á laugardaginn kemur og þeirra nánustu. 

 

Hægt verður að máta Alzheimer-hlaupaboli á staðnum sem allir skráðir hlauparar fá að gjöf. Við vonumst til að sjá sem flesta merkta samtökunum í hlaupinu sjálfu. Hlaupararnir fá líka fjölnota taupoka með smá glaðningi sem þökk fyrir að leggja málefninu lið. 

 

Fræðslustjóri samtakanna mun kynna starfsemina stuttlega og segja frá hvernig söfnunarfé síðasta árs var varið og reyndur hlaupari verður á staðnum til að gefa ráð og svara fyrirspurnum í tengslum við langhlaup. 

 

Hlökkum til að sjá ykkur. 

Styttist óðum í Reykjavíkurmaraþonið

07/08/2018

Eins og flestir hafa orðið varir við fer árlegt Reykjavíkurmaraþon fram þann 18. ágúst næstkomandi og þar verða hlauparar sem styðja Alzheimersamtökin áberandi að vanda. 

Á fimmtudaginn kemur mun Arnar Pétursson stjórna hlaupaæfingu fyrir okkur en hann er einn af bestu langhlaupurum landsins. Án efa hafa margir áhuga á þessum viðburði og hvetjum við alla sem vilja til að mæta og njóta en mæting er við Víkinsheimilið í Fossvogi kl. 17.00. 

Þá minnum við á móttöku fyrir hlaupara í Hátúni 10 miðvikudaginn 15. ágúst kl. 16.30 þar sem m.a. verður farið yfir það helsta sem þarf að hafa í huga. 

Við verðum á Skráningarhátíðinni í Laugardalshöll fimmtudag og föstudag fyrir hlaupið þar sem hlauparar geta m.a. nálgast boli. 

Hvatningarstöðin verður á sínum stað á horni Eiðisgranda og Grandavegar og loks verðum við með uppskeruhátíð fyrir hlaupara fimmtudaginn 23. ágúst í Hátúni 10 þar sem grillaðar verða pylsur og skipst á sögum úr hlaupinu. 

Að lokum hvetjum við sem flesta sem ekki ætla að hlaupa til að vera með okkur á hvatningarstöðinni og aðstoða þar við að halda uppi sem mestu fjöri en þangað eru allir velkomnir.

Veritas hleypur fyrir Alzheimersamtökin

28/06/2018

Undirbúningur fyrir Reykjavíkurmaraþon stendur nú sem hæst og hafa þegar fjölmargir ákveðið að styrkja Alzheimersamtökin með áheitasöfnun. Stór hópur bættist nýlega við en það eru starfsmenn Veritas sem er móðurfélag Vistor, Distica, MEDOR og Artasan sem öll starfa í heilbrigðistengdri þjónustu. Gera má ráð fyrir að um 70 manns hlaupi á vegum fyrirtækisins. Samtökin bjóða þau velkomin í hópinn og þakka kærlega fyrir stuðninginn. 

Fundur Norrænu Alzheimersamtakanna

26/06/2018

Dagana 19. og 20. júní síðastliðin buðu dönsku alzeimersamtökin Alzheimerforeningen til Norræna fundarins í Kaupmannahöfn. Fundurinn er haldinn árlega og skiptast Norðurlöndin á að bjóða heim og skipuleggja dagskrá. Í ár vantaði aðeins fulltrúa frá Álandseyjum. 

 

Þau félög sem sendu fulltrúa voru Nasjonalforeningen for folkehelse í Noregi, Muistilitto í Finnlandi, Alzheimer Svergie í Svíþjóð, Alzheimerfelagið í Færeyjum og eitt sveitarfélag á Grænlandi því þar hefur ekki verið stofnað formlegt félag. Þar að auki áttu Alzheimersamtökin á Íslandi tvo fulltrúa; Vilborgu Gunnarsdóttur framkvæmdastjóra og Sirrý Sif Sigurlaugardóttur fræðslustjóra. 

 

Dagskráin var þétt þá svo daga sem fundurinn stóð en hann var stærri í ár en oft áður. Ástæðan er sú að á fundinum í Færeyjum í fyrra var ákveðið að leggja meira upp úr því að bjóða fólki með heilabilun og aðstandendum þeirra að taka þátt í fundinum. Íslendingum og Grænlendingum tókst ekki að hafa uppi á þátttakendum en frá öðrum löndum var fólk með heilabilun og aðstandendur þeirra sem tóku virkan þátt í fundinum. 

 

Þema fundarins í ár var Demensvenligt samfund eða á ensku Dementia Friendly Communities. Hugmyndafræðin á rætur sínar að rekja til Bretlands og því kannast margir við hana sem DFC hugmyndafræðina. Alzheimersamtökin á Íslandi auglýsa hér með eftir ákjósanlegri þýðingu sem mætti nota hér á landi. Ýmsar tillögur hafa komið fram en ekkert nægilega þjált enn sem komið er. Ekki hika við að senda okkur hugmyndir á alzheimer[a]alzheimer.is. 

 

Framlag okkar til fundarins í ár var kynning á samstarfsverkefnum Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur og Þjóðminjasafns Íslands við nokkrar sérhæfðar dagþjálfanir fyrir fólk með heilabilun á Höfuðborgarsvæðinu. Notendur þar hafa farið reglulega í heimsóknir á söfnin með aðstandendum sínum og tekið þátt í skipulagðri umræðu um ákveðin verk. Aðferðin byggir á hugmyndafræði sem Halldóra Arnardóttir listfræðingur hefur þróað og kynnti í bókinni Listir og menning sem meðferð: Íslensk söfn og Alzheimer. Bókina má nálgast í öllum betri bókabúðum og í vefverslun okkar hér á síðunni. Smellið hér til að fara í vefverslun. 

 

Næsti Norræni fundur verður í Osló í Noregi að ári liðnu. Ef þú eða aðstandandi þinn er með heilabilun og gæti hugsað sér að taka þátt í Norrænu samstarfi hvetjum við ykkur til að hafa samband við skrifstofuna og fá nánari upplýsingar um hvað málið snýst. 

23
ágú

Uppskeruhátíð hlaupara

23/08/2018
kl. 18:30 - 20:00

Staðsetning

Hásalur, Hátúni 10, 105 Reykjavík

Tími

Kl. 18:30 - 20:00

Stutt lýsing

Árleg uppskeruhátíð Alzheimersamtakanna að loknu Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka 2018 fer fram fimmtudaginn 23. ágúst næstkomandi. 

Við bjóðum þeim sem hlupu fyrir okkur í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka 2017 og fjölskyldum þeirra til grillveislu í stóra salnum í húsnæði okkar í Hátúni 10 í Reykjavík. Í fyrra komu margir en við viljum endilega sjá enn fleiri núna. Það er um að gera að líta við, fá sér grillaða pylsu, spjalla og leika sér. 

Á myndinni hér fyrir ofan eru fulltrúar hlaupahópsins Stingum af sem fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur og smá góðgæti í verðlaun.

04
sep

Stuðningshópar

04/09/2018
kl. 13:30 - 15:00

Staðsetning

Hátúni 10, 105 Reykjavík

Tími

Kl. 13:30 - 15:00

Stutt lýsing

Stuðningshópar fyrir aðstandendur fólks með heilabilun.
Aðstandendur eru fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir en á það sameiginlegt að eiga ástvin heima, í dagþjálfun eða á hjúkrunarheimili.
 

Markmiðið með samverunni er að hittast, spjalla og deila reynslunni. Stuðningur annarra í svipuðum aðstæðum getur bætt líðan og dregið úr streitu. Allir aðstandendur fólks með heilabilun eru hvattir til að koma og spjalla. Ekki þarf að skrá sig og aðgangur er ókeypis.

06
sep

Dagsnámskeið - Dementia: The Person Behind the Disease

06/09/2018
kl. 09:00 -15:30

Staðsetning

Hlíð, Öldrunarheimili Akureyrar

Tími

Kl. 09:00 -15:30

Stutt lýsing

Eden Alternative á Íslandi í samvinnu við Öldrunarheimili Akureyrarbæjar og Grundarheimilin standa fyrir tveim námskeiðum um persónumiðaða umönnun fólks með heilabilun í september. 

Fyrirlesarar á námskeiðinu eru Carol Ende frá Alaska og Rayne Stroebel frá Suður Afríku.

Þátttökugjald er 12.500 kr. Hádegismatur, hressing og kaffi er innifalið. Námskeiðið er kennt á ensku. 

Alzheimersamtökin eru einn af styrktaraðilum námskeiðanna og hvetjum við áhugasama til að nýta þetta einstaka tækifæri. 

Smellið hér til að opna heimasíðu Eden Alternative á Íslandi. 

Smellið hér til að opna Facebook viðburð fyrir námskeiðin. 

Smellið hér til að fara beint á skráningarsíðu fyrir námskeiðin. 

 

06
sep

Alzheimerkaffi

06/09/2018
kl. 17:00 - 18:30

Staðsetning

Félagsmiðstöðin Hæðargarði 31, 108 Reykjavík

Tími

Kl. 17:00 - 18:30

Stutt lýsing

Spjall, fræðsla og söngur.
Kaffi og meðlæti.

Aðgangseyrir kr. 500.-

Allir velkomnir.

VEFTRÉ
W:
H: