RÁÐGJAFASÍMINN
533 10 88
SENDA
MINNINGARKORT
GERAST
FÉLAGI
Innkaupakerra
Fréttir & Viðburðir

Yfirlýsing um samstarf

12/10/2018

Í dag undirrituðu Árni Sverrisson, formaður Alzheimersamtakanna og Halldór S. Guðmundsson, framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar viljayfirlýsingu sem staðfestir að efla enn frekar samstarf Alzheimersamtakanna og Öldrunarheimila Akureyrar á sviði almennrar fræðslu og viðhorfa með því að miðla þekkingu og veita ráðgjöf og stuðning við einstaklinga með heilabilun og fjölskyldur þeirra.

Meðal þess sem lögð verður áhersla á eru uppbygging náms og námskeiða fyrir almenning og fagfólk og að bjóða til samverustunda, Alzheimerkaffis og fræðslu- og hópastarfs eins og verið hefur í húsakynnum ÖA. Þá er stefnt að samstarfi um að byggja upp á Akureyri ráðgjafaþjónustu sem sérhæfir sig í heilabilun sem þjóni jafnt Akureyringum sem og íbúum og starfsfólki á Norðurlandi.  Unnið verður saman að útgáfu fræðsluefnis og lagst saman á árar um að þrýsta á að til verði stefna í málaflokknum.

Samstarf samtakanna og norðanmanna er ekki nýtt af nálinni fram að þessu hefur starfsfólk beggja unnið saman að ýmsum verkefnum en það nýjasta eru Grunnnámskeið um heilabilun í samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands.

Vonast er til að það takist að fjármagna verkefnið sem fyrst svo hægt verði að hrinda því í framkvæmd.

Sláandi tölfræði

10/10/2018

Steinunn Þórðardóttir öldrunarlæknir á Landakoti flutti fyrirlestur á Fræðslufundi Alzheimersamtakanna í gær þar sem megin umfjöllunarefnið var Alzheimersjúkdómurinn sjálfur.

Undirfyrirsögn fyrirlesturs Steinunnar var „Faraldur 20. aldarinnar“ og fór hún m.a. yfir tölfræði frá Bandaríkjunum þar sem fram kom að á árunum 2000-2015 varð 11% fækkun hjá þeim sem létust af völdum hjartasjúkdóma á meðan 123% fleiri létust af völdum heilabilunarsjúkdóma.

Þá kom fram að þrátt fyrir að jafn margir látist árlega úr krabbameini og heilabilunarsjúkdómum er tífallt meiru fjármagni varið til krabbameinsrannsókna. Þá er kostnaður við umönnun fólks með heilabilunarsjúkdóma tvöfallt meiri en kostnaður við umönnun krabbameinssjúkra.

Ef tölurnar frá Bandaríkjunum eru heimfærðar á Íslands má áætla að um 6000 manns séu haldin heilabilunarsjúkdómum en enginn skráning á sér stað á Íslandi í þessum málaflokki.

Horfa má á fyrirlestur Steinunnar á Facebook síðu Alzheimersamtakanna.  

Maríuhús þakkar fyrir sig

05/10/2018

Þann 19. september síðastliðinn hélt Maríuhús, dagþjálfun fyrir fólk með heilabilunarsjúkdóma, upp á 10 ára afmæli sitt með því að hafa opið hús.

Við erum snortin af þeim mikla fjölda sem gaf sér tíma í að koma og fagna með okkur en vel á annað hundrað gestir mættu á svæðið.

 

Forsetafrúin okkar, Eliza Reid var heiðursgestur og ávarpaði samkomuna.  Stutt erindi fluttu svo Árni Sverrisson, formaður Alzheimersamtakanna, Ólína Kristín Jónsdóttir, forstöðumaður í Maríuhúsi, Sveinn Björgvin Isebarn, skjólstæðingur Maríuhúss og Jóna Þórsdóttir, aðstandandi í Maríuhúsi.  Einnig kvaddi sér hljóðs Dóra Valsdóttir sem er aðstandandi hjá okkur en hún færði okkur þessa fallegu vísu:

Virðingu og vellíðan finna þeir fljótt

sem hingað í Maríuhús hafa sótt.

Samstaða starfsmanna andrúmsloft glæðir,

gleði og ánægju öllum hér færir.

 

Að lokum skemmtu Vandræðaskáldin Sesselía Ólafsdóttir og Vilhjálmur B. Bragason okkur með söng og gamanmáli.  Hápunktur þeirrar skemmtunar var lag sem að við höfðum beðið þau um að semja en okkur í Maríuhúsi langaði að koma á framfæri að þó að heilabilun sé grimmur sjúkdómur þá fylgir því ekki eintómt svartnætti.
Það skiptir gríðarlega miklu máli að njóta líðandi stundar og horfa á það sem enn er hægt að gera frekar en það sem ekki lengur er mögulegt.
Húmorinn er að okkar mati mikilvægur í þessu samhengi líka, að geta brosað gerir lífið alltaf bjartara.  Við erum ótrúlega þakklát Vandræðaskáldunum fyrir að taka svona vel í erindi okkar og búa til þetta fallega lag.   Lagið má finna á fésbókarsíðu Vandræðaskáldanna.

 

Það voru mörg fyrirtæki sem að gerðu okkur kleift að halda veglega upp á afmælið, ýmist með gjöfum eða góðum afsláttum.  Við viljum þakka eftirtöldum fyrirtækjum kærlega fyrir stuðninginn:

Matborðið

Bónus

Íssaga

Air Iceland Connect

Smurbrauðsstofa Sylvíu

Krispy Kreme

Dunkin Donuts

Blómasmiðjan, Grímsbæ

CCEP, Coca Cola á Íslandi

Tertugallerí Myllunar

 

Starfsfólk Maríuhúss vann ötullega að undirbúningi afmælisins og á þakkir skildar, án góðs starfshóps væri Maríuhús ekki það sem það er.

 

Enn og aftur, takk fyrir okkur!

Fyrir hönd allra í Maríuhúsi

Ólína Kristín

Alzheimerkaffi á Höfn

25/09/2018

24. september var Alzheimerkaffi hjá okkur í Hornafirði. Líney Úlfarsdóttir sálfræðingur á Þjónustumiðstöð Laugardals, Háaleitis og Bústaða hjá Reykjavíkurborg hélt góðan fyrirlestur um geðheilbrigði aldraðra.

 

Kaffið var vel sótt, um 30 mans mættu og er það ágætis aðsókn að mínu mati þó ég hefði viljað sjá meira af miðaldra einstaklingum því það á víst fyrir okkur öllum að liggja að eldast og það skiptir miklu máli að gera það vel. Þetta er einn sá þáttur sem við sjálf getum unnið vel að ef við viljum.

 

Kaffi, kleinur og konfekt rann ljúflega niður og samsöngur og harmonikkuspil gladdi allavega mitt hjarta og vonandi fleiri sem þarna voru. Ég þakka öllum innilega fyrir komuna.

 

Þorbjörg Helgadóttir,

félagsliði og tengill Alzheimersamtakanna á Höfn.

24
okt

Namaste vinnustofa

24/10/2018
kl. 09:00 - 13:00

Staðsetning

Safnaðarheimili Bústaðakirkju (gengið inn að neðan)

Tími

Kl. 09:00 - 13:00

Stutt lýsing

Hjálpum fólki að lifa og njóta í stað þess að vera bara til 

Vinnustofa í Namaste nálgun, miðvikudaginn 24. október 2018 kl.09:00 - 13:00 í Safnaðarheimili Bústaðakirkju (gengið inn að neðan). 

Leiðbeinendur: 

Joyce Simard, félagsráðgjafi og höfundur hugmyndafræðinnar

Ladislav Volcier, öldrunarlæknir sem er einn höfunda PAINAD

Elfa Þöll Grétarsdóttir, sérfræðingur í hjúkrun aldraðra

 

 

 

 

 

Hugmyndafræði Namaste nálgunar felst í að bæta lífsgæði einstaklinga með persónumiðaðri vellíðunarmeðferð þar sem unnið er með skynfæri og þeir örvaðir á ákveðinn hátt. Það skilar sér í betri líðan, meiri ró og minni notkun róandi lyfja. 

Fræðsla verður á formi fyrirlestra, mynda og myndbanda. Verkleg kennsla, leikir og létt gaman. 

Léttur morgunverður frá kl.08:30. 

Verð fyrir einstaklinga 10.000 kr. Magnafsláttur ef fleiri en þrír frá sama vinnustað skrá sig. 

Skráning: elfatholl@gmail.com 

24
okt

Basar í Fríðuhúsi

24/10/2018
kl. 14:00 - 17:00

Staðsetning

Austurbrún 31, Reykjavík

Tími

Kl. 14:00 - 17:00

Stutt lýsing

Basar í Fríðuhúsi miðvikudaginn 24. Október n.k frá kl 14 - 17. Boðið upp á kaffi og meðlæti. Allir velkomnir.

Árið 1997 gaf Pétur Símonarson Alzheimersamtökunum (þá FAAS) húsið að Austurbrún 31 til minningar um konu sína Fríðu Ólafsdóttur. Endurbætur og undirbúningur tók um þrjú ár. Sérhæfð dagþjálfun fyrir fólk með heilabilun tók til starfa í byrjun janúar 2001.

Fríðuhús er dagþjálfun rekin af Alzheimersamtökunum. Markmið dagþjálfana í rekstri Alzheimersamtakanna er að:

  • viðhalda sjálfstæði einstaklingsins eins lengi og kostur er með því að styrkja líkamlega og vistmunalega hæfni hans og  stuðla þannig að því að hann geti búið sem lengst heima.
  • rjúfa félagslega einangrun og efla þátttöku í daglegum athöfnum.
  • létta undir með aðstandendum.
  • fylgjast með daglegu heilsufari.
  • efla sjálfstraust, draga úr vanlíðan og vanmáttakennd.

Tekið er mið af getu hvers og eins þannig að einstaklingurinn fái að njóta sín og finni fyrir öryggi og vellíðan.  Fastir liðir í þjálfuninni eru m.a. samverustundir, upplestur, söngur, leikfimi, útivera, gönguferðir, aðstoð í eldhúsi, hannyrðir, kertagerð, heimsókn frá presti, barnakór, Vinabandið kemur einu sinni í mánuði og spilar fyrir dansi, farið í dagsferðir, farið á söfn og sýningar.

Alls dvelja í húsinu dag hvern rúmlega 18 einstaklingar með heilabilun.

25
okt

Hvað er HEILA málið? Námskeið í Reykjavík

25/10/2018
kl. 12:00 - 16:00

Staðsetning

Endurmenntun Háskóla Íslands, Dunhaga 7

Tími

Kl. 12:00 - 16:00

Stutt lýsing

Námskeið Endurmenntunar Háskóla Íslands í samvinnu við Alzheimersamtökin 

Hefurðu áhuga á heilabilun? Viltu vita meira um sjúkdóma sem valda heilabilun og fólkið sem lifir með þeim? Starfar þú eða hefur þú hug á að starfa með fólki með heilabilun? Á námskeiðinu er farið yfir grundvallaratriði varðandi heilabilun, líffræði, umönnunarmenningu, samskipti, fjölskyldukerfið og lífsgæði.

Smellið hér til að fara á skráningarsíðu. 

SNEMMSKRÁNING TIL OG MEÐ 15. OKTÓBER

Hvenær: Fim. 25. og fös. 26. okt. kl.12:00 - 16:00

Markmið námskeiðsins er að veita grunnþekkingu á heilabilunarsjúkdómum og einkennum þeirra. Hvað er eðlileg öldrun? Hvað er heilabilun? Hverjar eru algengustu tegundir heilabilunar?
Hvernig hefur heilabilun áhrif á vitræna getu, framkomu og hegðun, líðan og heilsu þeirra sem veikjast? Farið er yfir hlutverk umönnunaraðila í samskiptum við fólk með heilabilun og fjölskyldur þeirra.
Að námskeiði loknu ættu þátttakendur að geta gert grein fyrir mismunandi tegundum heilabilunarsjúkdóma, einkennum þeirra og meðferð, þekkja þá hugmyndafræði sem liggur til grundvallar umönnun fólks með heilabilun og geta átt uppbyggileg samskipti við fólk með heilabilun í þeim tilgangi að hámarka vellíðan í öllum aðstæðum.

Á námskeiðinu er fjallað um:

• Líffræði heilabilunarsjúkdóma, greiningu og meðferð.
• Persónumiðaða umönnun (e. person centered care). 
• Lífsgæði og áhrif á daglegt líf.
• Að hámarka vellíðan fólks með heilabilun.
• Áhrif á fjölskylduna og einstaklinginn.
• Samskipti og heilabilun.
• Heilabilunarráðgjöf sem fag (d. demenskoordinator). 
• Vinveitt samfélög (e. dementia friendly communities).

Ávinningur þinn:

• Aukin þekking á heilabilunarsjúkdómum, einkennum þeirra og meðferð.
•Aukinn skilningur á áhrifum heilabilunar á þá sem veikjast.
• Aukin færni í samskiptum við fólk með heilabilun. 
• Aukin þekking á leiðandi hugmyndafræði í umönnun fólks með heilabilun á öllum þjónustustigum.
• Færni í stöðugu viðhaldi og uppfærslu þekkingar.

Fyrir hverja:

Námskeiðið er ætlað öllum sem starfa með fólki með heilabilun eða hafa hug á að starfa með fólki með heilabilun, bæði starfsmönnum við umönnun og öðrum fagaðilum í félags- og heilbrigðisþjónustu.

Kennsla:

Sirrý Sif Sigurlaugardóttir er með MA-próf í félagsráðgjöf og starfar sem fræðslu- og verkefnastjóri Alzheimersamtakanna. 
Berglind Indriðadóttir Iðjuþjálfi hjá Farsæl Öldrun, Þekkingarmiðstöð. 
Hulda Sveinsdóttir er hjúkrunarfræðingur og hefur starfað sem demenskonsulent í Danmörku til fjölda ára.

Aðrar upplýsingar:

Námskeiðið er skipulagt í samstarfi við Alzheimersamtökin. Þátttakendur fá aðgang að glærum og greinum sem notaðar eru við kennsluna, leslista með tillögum að ítarefni og ábendingar um hvar má finna nánari upplýsingar.

Smellið hér til að fara á skráningarsíðu. 

26
okt

Hvað er HEILA málið? Námskeið í Reykjavík

26/10/2018
kl. 12:00 - 16:00

Staðsetning

Endurmenntun Háskóla Íslands

Tími

Kl. 12:00 - 16:00

Stutt lýsing

Hvenær:

Fim. 25. og fös. 26. okt. kl.12:00 - 16:00

Kennsla:

Sirrý Sif Sigurlaugardóttir, félagsráðgjafi, Berglind Indriðadóttir, iðjuþjálfi, Hulda Sveinsdóttir, heilabilunarráðgjafi og Helga Eyjólfsdóttir öldrunarlæknir.

Hvar:

Endurmenntun, Dunhaga 7.

Í samstarfi við Alzheimersamtökin

Hefurðu áhuga á heilabilun? Viltu vita meira um sjúkdóma sem valda heilabilun og fólkið sem lifir með þeim? Starfar þú eða hefur þú hug á að starfa með fólki með heilabilun? Á námskeiðinu er farið yfir grundvallaratriði varðandi heilabilun, líffræði, umönnunarmenningu, samskipti, fjölskyldukerfið og lífsgæði.

Markmið námskeiðsins er að veita grunnþekkingu á heilabilunarsjúkdómum og einkennum þeirra. Hvað er eðlileg öldrun? Hvað er heilabilun? Hverjar eru algengustu tegundir heilabilunar?
Hvernig hefur heilabilun áhrif á vitræna getu, framkomu og hegðun, líðan og heilsu þeirra sem veikjast? Farið er yfir hlutverk umönnunaraðila í samskiptum við fólk með heilabilun og fjölskyldur þeirra.
Að námskeiði loknu ættu þátttakendur að geta gert grein fyrir mismunandi tegundum heilabilunarsjúkdóma, einkennum þeirra og meðferð, þekkja þá hugmyndafræði sem liggur til grundvallar umönnun fólks með heilabilun og geta átt uppbyggileg samskipti við fólk með heilabilun í þeim tilgangi að hámarka vellíðan í öllum aðstæðum.

Á námskeiðinu er fjallað um:

• Líffræði heilabilunarsjúkdóma, greiningu og meðferð.
• Persónumiðaða umönnun (e. person centered care). 
• Lífsgæði og áhrif á daglegt líf.
• Að hámarka vellíðan fólks með heilabilun.
• Áhrif á fjölskylduna og einstaklinginn.
• Samskipti og heilabilun.
• Heilabilunarráðgjöf sem fag (d. demenskoordinator). 

VEFTRÉ
W:
H: