RÁÐGJAFASÍMINN
520 10 82
SENDA
MINNINGARKORT
GERAST
FÉLAGI
STYRKJA SAMTÖKIN
HEILAVINUR
Innkaupakerra
Tegundir heilabilunar

Alzheimer sjúkdómur

Alzheimerssjúkdómur er  taugahrörnunarsjúkdómur og algengasta orsök heilabilunar. Alois Alzheimer var þýskur læknir sem árið 1906 lýsti einkennum sjúkdómsins fyrstur manna og sýndi hann jafnframt fram á mjög einkennandi breytingar í heila sjúklingsins. Sjúkdómurinn er algengastur hjá eldra fólki, en yngri einstaklingar geta líka veikst.

Einkenni Alzheimerssjúkdómsins  koma hægt og lúmskt og geta verið afar óljós og margslungin. Þegar sjúkdómsgreiningin liggur endanlega fyrir, er algengt að aðstandendur tali um að það séu mörg ár síðan eitthvað fór að breytast, það var bara svo erfitt að átta sig á hvað var að gerast. Gleymska er yfirleitt fyrsta einkennið sem tekið er eftir, einkennin verða smám saman meira og meira áberandi og fara að hafa meiri áhrif á líf einstaklingsins og gera honum erfiðara að takast á við tilveruna. Þessu ferli getur fylgt mikill kvíði og öryggisleysi.

Engin lækning er við Alzheimerssjúkdómnum, en til eru lyf sem geta hægt á ferlinu og aukið vellíðan einstaklingsins. Þrátt fyrir þetta er mikilvægt að fá greiningu á sjúkdómnum eins snemma í ferlinu og kostur er, bæði til þess að fá viðeigandi meðferð en líka til þess að geta verið virkur þátttakandi í því að skipuleggja framtíðina. Að mörgu þarf að hyggja og margir þurfa að koma að málum ef vel á að takast til. Aðstandendur eru hvattir til að leita sér aðstoðar, fá ráðgjöf og stuðning.Lewy body sjúkdómurinn

Lewy body heilabilun er meðal þeirra heilabilunarsjúkdóma sem auk þess að hafa í för með sér ýmis einkenni heilabilunar, geta einnig komið fram sem hreyfitruflanir sambærilegar þeim sem fólk með Parkinsonssjúkdóminn fá. Annað sem einkennir Lewy body eru sjónrænar ofskynjanir, skiftandi athygli, ruglástand með ranghugmyndum, byltur og fleira. Óþol fyrir geðlyfjum er einkennandi.

Sjúkdómurinn er nefndur eftir þýskum lækni, Frederick Lewy, sem fyrstur lýsti þeim sérstöku breytingum sem verða á heilafrumunum við þennan sjúkdóm. Skiptar skoðanir eru um algengni Lewy sjúkdómsins, en líklega er hann algengari en talið er. Það getur verið flókið að greina sjúkdóminn, einkennin geta bæði vísað til Alzheimerssjúkdómsins og Parkinsonssjúkdómsins og því líður oft langur tími þar til  endanleg sjúkdómsgreining liggur fyrir. Orsök sjúkdómsins er óþekkt og ekki er talið að hann sé arfgengur. Með hækkandi aldri aukast líkurnar á því að veikjast. Því miður hefur ekki verið fundin lækning við Lewy body.

HEILRÆÐI #2

Þjálfaðu heilann reglulega

Þegar við tileinkum okkur nýja þekkingu eða nýjan hæfileika reynum við á heilann.

Haltu áfram að læra út lífið og stígðu reglulega út fyrir þægindarammann.

Það er hollt fyrir bæði líkama og sál. 

Framheilabilun

Framheilabilun er ekki ein ákveðin tegund heilabilunar, heldur samheiti yfir þá heilabilunarsjúkdóma sem leggjast sérstaklega á framhluta heilans (ennisblaðið) og/eða fremri hluta gagnaugablaðsins. Framheilabilun er ólík öðrum heilabilunarsjúkdómum að því leitinu að einkenni eins og hegðunarbreytingar, framtaksleysi, málstol með skertri tjáningu og/eða skilningi eru meira áberandi en minnisskerðing og annað það sem til dæmis einkennir til dæmis Alzheimerssjúkdóminn.

Taugafræðilega séð geta framheilabilanir verið af mismunandi orsökum, en þar sem einkenni eru svipuð þá hafa allir sjúkdómarnir verið flokkaðir undir  Framheilabilun. Þýski  tauga- og geðlæknirinn Arnold Pick lýsti fyrsta framheilasjúkdómnum árið 1892. Sjúkdómurinn fékk nafnið Pick sjúkdómur og er hann algengasta framheilabilunin. Engin meðferð er til við framheilabilun, vegna þeirra sérstöku einkenna sem koma fram við sjúkdóma í framheila er afar mikilvægt að sjúklingur, aðstandendur og aðrir þeir sem sinna umönnun þessara einstaklinga fái góða fræðslu, ráðgjöf og stuðning.Æðabilun

Íslensk tunga býður ekki upp á neitt gott orð yfir heilabilun sem orsakast af sjúkleika í æðum. Enska heitið er Vascular dementia, danir tala um Vaskulær demens. Á íslensku hefur ástandið verið nefnt Æðaheilabilun eða Æðavitglöp.

Á eftir Alzheimerssjúkdómnum er æðaheilabilun næst algengasta form heilabilunar. Orsökin er æðakölkun, bæði í heilaæðum og æðum í hálsi og í hjarta, blóðtappar eða blæðingar sem hafa hindrað súrefnisflæði til heilans. Einkennin við æðaheilabilun eru mjög mismunandi, þar sem skaðinn getur verið mismikill og á mismunandi stöðum í heilanun.

Blönduð gerð af heilabilun er ekki óalgeng, en þá er sami einstaklingurinn bæði með Alzheimerssjúkdóminn og æðaheilabilun, og getur því birtingarmynd sjúkdómsins verið flókin. Æðasjúkdómar flokkast að einhverju leiti sem lífsstílssjúkdómar og með breyttum og bættum lífsstíl er mögulegt að draga úr þeim sjúkdómum og þar með fækka þeim sem veikjast af æðaheilabilun. Sérfræðingar fara varlega með tölur í þessum efnum, en allir eru sammála um að árangur náist með fyrirbyggjandi aðgerðum og betri heilaheilsu.

Að greinast ungur

Veikist fólk af heilabilun fyrir 65 ára aldur telst það snemmkomin heilabilun (young onset dementia). Allar gerðir heilabilunarsjúkdóma geta komið fram fyrir 65 ára aldur; til dæmis alzheimer, lewy body heilabilun, æðavitglöp, framheilabilun, blönduð heilabilun, heilabilun vegna áfengisneyslu og heilabilun vegna höfuðáverka. Ástæða þess að snemmkomin heilabilun er skilgreind sem sérstök tegund heilabilunar er hve ólíkar þarfir sá hópur getur haft miðað við þá sem greinast seinna á ævinni.

Þeir sem fá snemmkomna heilabilun eru margir hverjir enn á vinnumarkaði, eiga maka, börn sem búa enn inni á heimilinu eða eru í umönnunarhlutverki gagnvart eigin foreldrum. Að greinast með snemmkomna heilabilun hefur varanleg áhrif á líf einstaklingsins og fjölskyldu hans. Því fyrr sem rétt greining fæst því betra en því miður er oft erfitt fyrir yngra fólk að fá greiningu. Algengt er að fólk sé fyrst greint með þunglyndi, kvíða eða streitueinkenni. Þetta skýrist að einhverju leiti af því hve einkenni snemmkominnar heilabilunar eru fjölbreytt en einnig af þekkingarleysi heilbrigðisstarfsfólks á heilabilunum.

Hjá fólki með Alzheimer er minnistap yfirleitt fyrsta einkenni sem tekið er eftir en eftir því sem fólk er yngra eru önnur einkenni meira áberandi, til að mynda málstol, verkstol, skert ratvísi, dómgreindarskerðing og innsæisleysi.

Þeir sem greinast með snemmkomna heilabilun eru líklegri til að:

 • vera enn á vinnumarkaði
   
 • eiga maka sem er enn á vinnumarkaði
   
 • eiga börn undir lögaldri
   
 • eiga foreldra sem þarfnast umönnunar
   
 • vera skuldsettir
   
 • vera vel á sig komnir líkamlega
   
 • fá arfgenga heilabilun eða sjaldgæfari gerð

 

Aðrar heilabilanir

Mikill fjöldi sjúkdóma getur haft einhverns konar heilabilun í för með sér. Ekki er unnt að gefa út tæmandi lista þar sem stöðugt er verið að rannsaka heilabilunarsjúkdóma og orsakir þeirra um allan heim.

Alkóhól-demens / Korsakoff

Heilabilun sem orsakast af óhóflegri áfengisnotkun til lengri tíma. Wernicke-Korsakoff heilkenni er taugasjúkdómur af völdum skorts á  B1 vítamíni (thiamin). Ástandið kemur venjulega ekki fram hjá áfengissjúklingum fyrr en eftir áratuga drykkju samfara vannæringu og vosbúð.

Huntingtonssjúkdómur

Huntingtonssjúkdómur er ættgengur sjúkdómur þar sem heilafrumur hrörna smám saman. Honum var fyrst lýst 1872 af bandaríska lækninum George Huntington. Það sem veldur sjúkdómnum er ríkjandi galli á litningi númer fjögur.

Parkinsontengd heilabilun 

Heilabilun hjá fólki með Parkinsonsjúkdóminn lýsir sér á svipaðan hátt og hjá fólki með Lewy sjúdóminn, þar sem einkenni eru mismunandi frá einum degi til annars. Skortur á dópamínfrumum skýrir hluta af þessum einkennum en einnig fá sumir jafnframt aðrar breytingar í heila.

 

 

 

 

 

Downs heilkennið er, eins og mörg önnur nefnt eftir þeim lækni sem fyrstur lýsti heilkenninu og einkennum hans. Það var breski læknirinn John Langdon Down sem fyrstur gerði það árið 1862. Einstaklingar sem eru með Downs-heilkenni hafa 3 eintök af litningi númer 21 eða alls 47 litninga. Litningurinn sem þessir einstaklingar hafa auka eintak af, innihalda erfðaefni sem talið er að hafi mikla þýðingu í sambandi við Alzheimerssjúkdóminn.

Áætlað algengi Alzheimersjúkdóms meðal fólks með Downs heilkenni er um 5% undir 40 ára aldri. Hlutfallið tvöfaldast svo á hverju fimm ára tímabili upp í 60 ára. 5-15% á aldrinum 40-49 og yfir 30% fólks á aldrinum 50-59 ára. Um 80% af fólki með Downs heilkenni sem nær 60 ára aldri fær Alzheimersjúkdóm. Enn fremur hefur verið sýnt fram á að sá hópur fólks á frekar á hættu að glíma við annars konar veikindi á sama tíma, bæði andleg og líkamleg.

Með aukinni þekkingu og betri læknismeðferð hafa einstaklingar með Downs heilkenni náð hærri aldri og er því heilabilun mun algengari nú hjá þessum einstaklingum en á árum áður. Til þess að ná sem mestum og bestum árangri í umönnun þessara einstaklinga er þverfagleg samvinna umönnunaraðila lykilatriði.

VEFTRÉ
W:
H: