RÁÐGJAFASÍMINN
533 10 88
SENDA
MINNINGARKORT
GERAST
FÉLAGI
Innkaupakerra
Algengar spurningar
+

Er hægt að læknast af Alzheimersjúkdómi?

Nei, ekki enn sem komið er. Vonandi kemur þó að því að rannsóknir og lyfjaþróun geri það mögulegt. Í dag eru til lyf sem hægja á þróun sjúkdómsins og viðhalda getu og færni þeirra sem veikjast töluvert lengur en áður.

+

Er heilabilun og Alzheimer það sama?

Já og nei. Heilabilun er regnhlífarhugtak sem nær yfir u.þ.b. 200 mismunandi tegundir heilabilunarsjúkdóma. Alzheimer er ein best þekkta tegund heilabilunar og jafnframt sú algengasta. Um 60% þeirra sem fá heilabilun greinast með Alzheimersjúkdóminn.

+

Er það ekki bara gamalt fólk sem fær heilabilun?

Nei. Líkurnar á því að veikjast af heilabilun aukast vissulega með aldrinum en fólk á öllum aldri getur fengið heilabilun. Veikist fólk fyrir 65 ára aldur er talað um snemmkomna heilabilun (young/early onset). Til eru dæmi þess að fólk niður í tvítugt greinist með heilabilun. Mikilvægt er að hafa í huga að heilabilun er ekki eðlilegur eða óumflýjanlegur hluti öldrunar svo allar vísbendingar ætti að taka alvarlega.

+

Er hægt að koma í veg fyrir heilabilun?

Nei, það er ekki hægt að koma í veg fyrir heilabilun EN það er margt sem getur dregið úr líkunum á því að fólk veikist. Rannsóknir benda til þess að margir þættir hafi áhrif á þróun heilabilunar og því full ástæða til að gera sem flest til að minnka líkurnar á heilabilun. Þar má til dæmis nefna að auðugt félagslíf, regluleg hreyfing og verkefni sem reyna á hugvit og veita gleði eru góð fyrir heilann. Svo hefur komið í ljós að allt sem er gott fyrir hjartað er líka gott fyrir heilann svo fólk er hvatt til að forðast háan blóðþrýsting, borði hollan mat, sleppi tóbaksnotkun og neyti áfengis í hófi.

+

Móðir mín er með Alzheimer. Hverjar eru líkurnar á því að ég veikist líka?

Líkurnar eru örlítið meiri en ef þú ættir ekki ættingja með Alzheimer. Aðeins 2-3% fólks með Alzheimer fær þá gerð sjúkdómsins sem er arfgeng. Forskotið sem þú hefur með því að vita að móðir þín er með Alzheimer er að þú getur nú þegar gripið til aðgerða sem draga úr líkunum á því að þú fáir heilabilun. Þú getur tamið þér heilbrigðan lífstíl og rætt við þína nánustu fjölskyldu um að fylgjast vel með fyrstu einkennum heilabilunarsjúkdóma svo grípa megi inn í eins snemma og mögulegt er.

+

Maðurinn minn sýnir greinileg einkenni heilabilunar en neitar að ræða málið. Hvað get ég gert?

Fáðu aðstoð. Bæði er hægt að hringja í heimilislækni til að segja frá einkennunum og fá mat hans á næstu skrefum eða panta tíma hjá ráðgjafa á Minnismóttöku LSH á Landakoti. Þér er einnig velkomið að hringja í ráðgjafasíma Alzheimersamtakanna 533-1088 og fá aðstoð um hvernig best er að hefja samtal á borð við þetta.

+

Hvernig sæki ég um sérhæfða dagþjálfun fyrir aðstandanda minn með heilabilun?

Umsókn um sérhæfða dagþjálfun þarf að koma frá lækni á Minnismóttöku eða sérfræðingi í öldrunarlækningum á stofu. Biðlistinn er miðlægur og haldið utan um hann á Landakoti. 

+

Ég bý úti á landi, er einhver þjónusta í boði nálægt mér?

Stutta svarið er já, það er þjónusta í boði. Hversu mikil og hversu sérhæfð er aftur á móti mjög misjafnt eftir því í hvaða sveitarfélagi þú býrð. 

Til að fara í gegnum greiningarferlið þarf að fara annað hvort til Reykjavíkur eða Akureyrar. Nánari upplýsingar hér.  Sumir þurfa jafnvel að fara erlendis í einhverjar rannsóknir. 

Eftir greiningu er félagsþjónustu sveitarfélaga ætlað að aðstoða þá sem þurfa þjónustu á eigin heimili (þegar að því kemur, vert er að taka fram að það getur liðið langur tími frá því einstaklingur fær greiningu og þar til hann þarf þjónustu). 

Með aukinni þjónustuþörf gæti fjölskyldan viljað íhuga sérhæfða dagþjálfun. Þær er að finna á höfuðborgarsvæðinu, á Selfossi og í Reykjanesbæ. Með því að smella hér má sjá hve mörg sérhæfð dagdvalarrými eru fyrir fólk með heilabilun í þinni heimabyggð. 

Alzheimersamtökin eru með tengiliði víða um land. Til að kanna hvort einhver sé nálægt þér má smella hér.  Ef þú hefur áhuga á að gerast tengiliður á þínu heimasvæði skaltu endilega senda okkur tölvupóst á alzheimer[hjá]alzheimer.is 

 

VEFTRÉ
W:
H: